11.7.2016 11:30

Mánudagur 11. 07. 16

Fyrir nokkrum árum tók ég þátt í ráðstefnu í Noregi þar sem háttsettur flotaforingi innan NATO hafði á orði í erindi sem hann flutti að í ályktunum sínum og stefnumótun mættu pólitískir forystumenn bandalagsins stundum minnast á það sem félli undir bókstafinn A í skammstöfuðu heiti bandalagsins, Atlantshafið. 

Í ljósi þessa áhugaleysis og þess að áhugi stjórnmálamanna og herforingja beindist mest að Eystrasalti og suð-austursvæði NATO um þessar mundir spáði ég því í grein í Morgunblaðinu föstudaginn 8. júlí að ekki yrði minnst á N-Atlantshafið í lokaályktun fundar ríkisoddvita NATO í Varsjá 8. og 9. júlí. Ég reyndist hafa rangt fyrir mér. Það er gert í tveimur af 139 greinum lokaályktunarinnar. Greinarnar tvær má lesa í heild á vefsíðunni vardberg.is

Orðalagið um N-Atlantshaf er ekki eins afdráttarlaust og um Eystrasalt og Svartahaf þar sem rætt er um viðbrögð við versnandi ástandi í öryggismálum.

Í 23. grein segir að Rússar haldi áfram að styrkja hernaðarlega stöðu sína, auka hernaðarumsvif sín, taka í notkun nýjan háþróaðan búnað og ögra svæðisbundnu öryggi. Á Norður-Atlantshafi eins og annars staðar verði bandalagið tilbúð til að beita fælingar- og varnarmætti gegn hvers kyns hugsanlegri ógn, þ. á m. gegn siglingaleiðum og hafsvæðum í nágrenni stranda NATO-ríkja. 

Í 47. gr. segir að bandalagið muni enn bæta strategíska forsjálni sína með því að efla greiningarstarf sitt, einkum í austri, suðri og á Norður-Atlantshafi. Geta þess til að skilja, fylgjast með og loks að sjá fyrir aðgerðir hugsanlegra andstæðinga með njósnum, eftirliti og könnun (Intelligence, Surveillance and Reconnaissance (ISR) og víðtækri upplýsingaöflun verði sífellt mikilvægari. Aðgerðir á þessum sviðum ráði úrslitum varðandi tímanlegar og upplýstar ákvarðanir um stjórnmál og hermál. Bandalagið ráði yfir nauðsynlegum kerfum til að tryggja að svörunarhæfni þess sé samsvarandi og hjá þeim herafla þess sem geti brugðist við með skemmstum fyrirvara.

Sameiginleg yfirlýsing utanríkisráðherra Íslands og varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna sem var birt 29. júní fellur vel að orðalaginu í 47. gr. Varsjárályktunarinnar. Eftirliti og könnun er haldið úti frá Keflavíkurflugvelli og þessa starfsemi er ætlunin að efla.

Þegar flotaforinginn sem nefndur var hér í upphafi flutti erindi sitt var ekki lögð áhersla á sameiginlegar varnir NATO-svæðisins í ályktunum bandalagsins heldur aðgerðir fjarri því. Þetta er nú breytt og N-Atlantshafið skiptir að nýju máli.