7.7.2016 12:00

Fimmtudagur 07. 07. 16

Fréttastofa ríkisútvarpsins ræddi við Jón Bjarnason, fyrrv. ráðherra og alþingismann vinstri grænna, miðvikudaginn 6. júlí um sameiginlega yfirlýsingu ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna um varnir Íslands frá 29. júní 2016 og kynnti sem „talsmann fullveldismála“ og formann Heimssýnar. Á ruv.is sagði:

„Hann [Jón] telur að þessi yfirlýsing gangi mun lengra en varnarsamningurinn frá 1951. „Í samskiptum þjóða eiga samningarnir að vera mjög afmarkaðir og niðurnjörvaðir þannig að báðir aðilar viti hvað til síns friðar heyri í þeim efnum,“ segir hann. „Þessi er opinn og það verður þá hluti stóra bróður, sem er Bandaríkin, að skilgreina það sér í hag á hverjum tíma. Þetta gengur gegn íslenskum þjóðarhagsmunum.“

Þessi skoðun Jóns um að yfirlýsingin gangi lengra en varnarsamningurinn er órökstudd og stenst ekki gagnrýni. Yfirlýsingin er ekki samningur og hún er ekki opin. Hún lýsir hvernig ríkin ætla að haga samstarfi sínu í varnamálum um þessar mundir. Hún fellur innan varnarsamningsins frá 1951 og samkomulags um varnarmál sem ríkisstjórnir Íslands og Bandaríkjanna gerðu 11. október 2006 eftir brottför varnarliðsins.

Engir fylgjast betur með öllu er varðar varnarsamstarf Íslendinga og Bandaríkjamanna en starfsmenn rússneska sendiráðsins í Reykjavík. Á tíma kalda stríðsins hikuðu álitsgjafar sovéskra fjölmiðla ekki við að hóta Íslendingum vegna samstarfs þeirra við Bandaríkjamenn og umsvifa þeirra á Keflavíkurflugvelli. Var oft samhljómur milli Rússa og talsmanna herstöðvaandstæðinga hér á landi og mátti ekki á milli sjá hvor teldi hættulegra fyrir Íslendinga að treysta á varnarsamstarf við Bandaríkjamenn og vera í NATO.

Nú bregður hins vegar svo við að Jón Bjarnason gengur lengra í andstöðu sinni við yfirlýsinguna um varnarmál en Alexey V. Shadskiy, staðgengill rússneska sendiherrans í Reykjavík, gerði í sjónvarpsviðtali í 22.00-fréttum ríkisútvarpsins miðvikudaginn 6. júlí. Á  ruv.is segir hann:

„Það er ekkert nýtt í samkomulaginu, ég las samkomulagið á íslensku og ensku og það er ekkert nýtt get ég sagt. Allt sem skrifað er þar sýnist mér bara verið að skjalfesta það sem þegar er.“

Heimssýn eru samtök þeirra sem vilja ekki Ísland í Evrópusambandið og til að vinna að þeim málstað er Jón Bjarnason formaður í samtökunum. Hafi hann talað sem Heimssýnar-formaður um varnarmál við fréttatsofuna eins og má skilja á kynningu á honum í fréttatímanum fór hann út fyrir formannsumboð sitt og vann gegn hagsmunum Heimssýnar.