31.7.2016 18:30

Sunnudagur 31. 07. 16

Flokksþing repúblíkana og demókrata eru að baki í Bandaríkjunum. Forsetaframbjóðendurnir Donald Trump (R) og Hillary Clinton (D) hafa lagt af stað í kosningaleiðangra. Enginn þorir að segja fyrir um hver úrslitin verða í nóvember. Trump hefur frá fyrsta degi gengið mun betur að afla sér fylgis en nokkurn álitsgjafa óraði fyrir og þeir tala nú varlegar um sigurlíkur Hillary Clinton en þeir gerðu.

Umræðuefnin í tilefni af kosningabaráttunni koma á óvart. Demókratar eiga fullt í fangi með að verjast tölvuárásum Rússa eða að undirlagi þeirra. Raunar gátu þeir ekki varið netþjóna í höfuðstöðvum flokksstjórnarinnar og birtust stolin tölvubréf sem urðu til þess að flokksformaðurinn sagði af sér. Sannað þótti að flokksstjórnin hefði ekki gætt hlutleysis. Hún hefði gert á hlut keppinautar Hillary Clinton, Bernies Sanders. Eftir að Clinton hóf slaginn við Trump birtust fréttir um að Rússar hefðu gert tölvuárás á netþjóna kosningastjórnar hennar. Telur Clinton engan vafa á að Rússar séu þarna að verki.

Á flokksþingi demókrata flutti músliminn Khizr Khan ræðu og minntist sonar síns, Humayuns Khans, hermanns sem týndi lífi í Írak-stríðinu árið 2004. Hann gagnrýndi Donald Trump og sagði að kosningaloforð hans um að skerða rétt múslima til að koma til Bandaríkjanna væri í andstöðu við bandarískar hugsjónir. Trump ætti að lesa stjórnarskrá Bandaríkjanna. Hann sagði að Trump hefði ekki sjálfur fórnað nokkru eða nokkrum.

Trump lét þessu ekki ósvarað. Hann sagði í viðtali á ABC-sjónvarpsstöðinni: „Mér finnst ég fórni miklu. Ég legg mjög, mjög hart að mér við vinnu.“ Hann beindi þó jafnframt athygli að Ghazölu Khan sem stóð þögul við hlið eiginmanns síns þegar hann flutti ræðu sína. Trump sagði: „Hún stóð þarna án þess að segja nokkuð. Ef til vill fékk hún ekki leyfi til að tala.“

Gazhala Khan sagðist vera of harmi slegin vegna sonarmissisins til að geta tekið til máls á flokksþinginu. Í grein í Washington Post sagði hún síðar að orð Trumps um á íslam afhjúpuðu aðeins vanþekkingu hans.

Hillary Clinton segir að framkoma Trumps í garð Khan-hjónanna sé aðeins enn eitt dæmið um dónaskap hans í garð fólks. Um Clinton sagði Trump af þessu tilefni: „Hún greiddi atkvæði með Írak-stríðinu, ekki ég.“