26.7.2016 11:00

Þriðjudagur 26. 07. 16

Enn er óljóst hvernig samningsmarkmið Breta verða gagnvart ESB. Theresa May forsætisráðherra hefur verið í Berlín og París. Angela Merkel sýndi skilning á ósk hennar um að Bretar fengju nokkra mánuði til að móta afstöðu sína. Meiri óþolinmæði gætti hjá François Hollande. Hann vill að Bretar taki sem fyrst af skarið um hvaða leið þeir ætli úr ESB og hvernig þeir vilja haga samskiptunum eftir brottförina. Fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 23. júní var töluvert um hræðslutal í þá veru að kæmi til úrsagnar yrði núverandi samningi um landmæravörslu Breta í Calais í Frakklandi rift. Nú er ljóst að það gerist ekki.

Eins og áður ber allt að þeim brunni að lokum að skynsamlegast sé fyrir Breta að gera EES-samning í einhverri mynd við ESB. Vandamálið er ákvæðið um frjálsa för yfir landamæri sem stangast á við yfirlýst markmið Breta að hafa stjórn á hve margir flytjast til Bretlands. Eftir ferð May til Merkel og Hollandes hafa birst fréttir um að hugsanlegt sé að Bretar fái sjö ára undanþágu frá reglunni um frjálsa för.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (SDG), formaður Framsóknarflokksins, hefur verið meira og minna óvirkur í stjórnmálabaráttunni síðan 5. apríl þegar hann tilkynnti þingflokki sínum að hann segði af sér sem forsætisráðherra og vildi að Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður flokksins, yrði forsætisráðherra í sinn stað.

Í gær, mánudaginn 25. júlí, sendi SDG flokksmönnum sínum bréf og boðaði virka endurkomu sína í stjórnmálalífið. Hann sagði meðal annars:

„Á næstunni mun ég því aftur hefja fulla þátttöku í stjórnmálabaráttunni. Það mun vekja viðbrögð. Látið það ekki slá ykkur út af laginu. [...] Á næstu dögum munu því flokksmenn fá sendar upplýsingar um öll þau álitamál sem upp kunna að koma.“

Í dag birtir SDG grein i Morgunblaðinu um störf ríkisstjórnarinnar og það sem eftir er af því sem lagt var upp með vorið 2013. Hann kýs að leggjast gegn ákvörðun Sigurðar Inga og Bjarna Benediktssonar að boðað verði til kosninga í haust þar sem enn séu óunnin verk. Þetta er næsta innantóm röksemdarfærsla þegar til þess er litið að 4. og 5. apríl undirbjó SDG þingrof og kosningar eftir illa útreið sem hann fékk í sjónvarpsþætti.

Viðbrögðin sem SDG boðar í bréfi sínu til framsóknarmanna snerta hvorki flokkinn né málefni hans heldur SDG sjálfan.