21.7.2016 14:15

Fimmtudagur 21. 07. 16

Þegar framsóknarmenn tilkynntu Ólafi Ragnari Grímssyni um hlutleysi sitt gagnvart minnihlutastjórn Samfylkingar og vinstri grænna (VG) í lok janúar 2009 var það von áhrifamanna innan Framsóknarflokksins að draumurinn um að ýta íhaldinu varanlega til hliðar í íslenskum stjórnmálum rættist að lokum.

Fyrsta markvissa tilraunin til að brjóta upp flokkaskipanina á þennan hátt var gerð með hræðslubandalagi Alþýðuflokks og Framsóknarflokks í þingkosningum árið 1956 þegar Hermann Jónasson var formaður Framsóknarflokksins. Tilraunin rann út í sandinn. Kratar áttuðu sig á að þeir áttu enga samleið með framsókn og 1959 tóku þeir upp samstarf við sjálfstæðismenn í viðreisnarstjórninni sem sat samfellt til ársins 1971.

Innan Framsóknarflokksins hefur jafnan starfað vinstrisinnaður armur, andvígur samvinnu við Sjálfstæðisflokkinn. Valgerður Sverrisdóttir var í forystu þessa arms framsóknarmanna í ársbyrjun 2009. Hún talaði þá fyrir aðild Íslands að ESB og tók síðan að sér eftir 1. febrúar 2009 að leiða þingnefnd um framgang stjórnarskrármáls Jóhönnu Sigurðardóttur.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var kjörinn formaður Framsóknarflokksins í janúar 2009 og mátti sín lítils fram að þingkosningum í apríl 2009 á meðan framsóknarmenn á alþingi háðu harða baráttu við sjálfstæðismenn í stjórnarskrármálinu, baráttu sem Jóhanna, VG og framsókn töpuðu.

Eftir að Bjarni Harðarson, þingmaður framsóknar, sagði af sér í nóvember 2008 vegna mistaka við sendingu tölvubréfs þar sem afstaða Valgerðar Sverrisdóttur til ESB var gagnrýnd af tveimur kjósenda hennar, settist varamaður Bjarna, Eygló Harðardóttir, á þing. Var hún úr þeim armi Framsóknarflokksins sem þolir illa sjálfstæðismenn. Í ræðu um stefnuræðu Jóhönnu Sigurðardóttur 4. febrúar 2009 sagði Eygló m. a.:

„Með nýjum formanni Framsóknar voru innleiddir nýir tíma í íslensk stjórnmál. Tilboð um stuðning við minnihlutastjórn Vinstri grænna og Samfylkingar hefur losað þjóðina úr spennitreyju frjálshyggjunnar. Þetta tilboð opnaði Samfylkingunni leið úr kæfandi faðmlagi Sjálfstæðisflokksins sem hún nýtti sér til heilla fyrir þing og þjóð.“

Nú er Eygló tekin til við að kvarta undan samstarfi við sjálfstæðismenn í ríkisstjórn síðan 2013 og segist hafa átt í „stöðugum slagsmálum“ um fjárveitingar. Vill hún falla frá áformum um að lækka skuldir ríkisins og telur réttmætt að hækka skatta. Þetta eru dæmigerðar vinstri lausnir sem leiða til stöðnunar. Stóra spurningin er: Hver leiðir framsókn í næstu kosningum? Eygló?