4.7.2016 10:30

Mánudagur 04. 07. 16

Íslenska karlalandsliðið mætti ofjarli sínum, Frökkum, á Stade de France við París í gær (5:2). Seinni hálfleikur var 2:1 fyrir Ísland sem sýnir að strákarnir okkar börðust eins og hetjur allt til loka leiksins.

Á Facebook-síðu mína setti ég tilvísanir í nokkur erlend blöð. Die Welt segir til dæmis um íslenska liðið: Komu sem amatörar, sneru heim sem þjóðsagnapersónur.  Í finnska Hufvudstadsbladet segir íþróttafréttaritarinn að verði hann spurður eftir 10 ár hvað honum sé minnisstæðast frá EM 2016, muni hann svara: „Eldfjalladrunur Íslendinga. Gæsahúð í hvert sinn.“ Þarna vísar hann til stuðningsmanna strákanna okkar og hins nú heimsfræga Húh! hróps.

Íslenskir leikmenn og stuðningsmenn skilja eftir sig góða minningu í huga allra sem fylgdust með EM 2016.

Þingmaður breska Íhaldsflokksins, Michael Dobbs, er höfundur sögunnar House of Cards sem hann skrifaði um bresk stjórnmál þegar Margaret Thatcher var ýtt til hliðar af flokksbræðrum hennar. Sagan er kveikjan að hinum frægu sjónvarpsþáttum um Underwood-hjónin í Washington.

Dobbs skrifar grein í The Daily Telegraph í dag um valdabaráttuna núna í Íhaldsflokknum. Þar segir meðal annars:

„Fyrir sex mánuðum, jafnvel fyrir aðeins sex vikum virtist ekkert geta hróflað við David Cameron, vald hans var óskorað, hann sagðist ætla að draga sig í hlé þegar honum hentaði, að lokum var það atburðarásin og bestu vinir hans sem urðu honum að falli. Launmorðingjarnir Boris [Johnson] og Michael [Gove] hafa eins og forverar þeirra Brutus og Cassius [morðingjar Ceasars] og [Michael] Heseltine og [Geoffrey] Howe [morðingjar Thatcher] nú þegar áttað sig á að ekki er unnt að fela sig á bakvið blóði drifinn kufl.

Það sem við getum lært af sögunni ber undarlega líkt yfirbragð, eina sem hefur breyst er aðferðin við að taka mann af lífi. Við lifum á tíma internetsins. Jesús var svikinn með kossi. Boris með tölvubréfi.“

Lokaorðin vísa til þess að daginn áður en Michael Gove bauð sig fram og gróf undan Boris var lekið tölvubréfi frá eiginkonu hans þar sem hún bað mann sinn að ganga úr skugga um að Boris ætlaði að standa við loforðin sem hann gaf fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna.