8.7.2016 10:30

Föstudagur 08. 07. 16

Hér var vikið að því í gær hvort Jón Bjarnason, fyrrv. þingmaður VG og ráðherra, hefði talað sem formaður Heimssýnar sem berst gegn aðild Íslands að ESB þegar hann formælti nýlegri yfirlýsingu utanríkisráðherra Íslands og varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna um varnir Íslands.

Jón ræðir þetta á blog-síðu sinni 7. júlí og segir:

„Ég var ekki að tala fyrir hönd Heimssýnar við ruv um þetta mál enda hafa samtökin  ekki tekið þennan samning fyrir á fundi sínum né heldur er það á sviði þeirra samtaka. Það er í sjálfu sér fjölmiðilsins að ákveða kynningu á viðmælendum sínum svo lengi sem farið er með rétt mál. Í sjónvarpsfréttum  í gær var ég kynntur sem sérstakur áhugamaður um fullveldi Íslands og fyrrverandi alþingismaður og ráðherra  en í útvarpsfréttum var þess getið að ég væri formaður Heimssýnar. Hinsvegar var hvergi  á það minnst að ég talaði fyrir hönd samtökin Heimssýn um þennan varnarsamning við Bandaríkin enda var það ekki svo.“

Miðað við alla gamla herstöðvaandstæðinga sem enn láta að sér kveða í opinberum umræðum er rannsóknarefni hvers vegna fréttamönnum ríkisútvarpsins datt í hug að hringja í Jón Bjarnason og spyrja hann um ofangreinda yfirlýsingu. 

Menn þurfa ekki að rannsaka lengi: Jón er formaður Heimssýnar og hann brást ekki vonum fréttastofunnar um að tala gegn skoðunum fjölmargra sem hafa lagt málstað Heimssýnar lið. Jón datt í pyttinn og tilgangi fréttastofunnar var náð en fréttin var í raun engin. Næst var svo hringt úr Efstaleitinu í staðgengil rússneska sendiherrans á Íslandi sem gekk ekki eins langt og Jón í fordæmingu á yfirlýsingunni.

Í raun er þessi framganga fréttastofunnar í Efstaleiti í anda þess furðulega sem þar getur gerst þegar leitast er við að gera eðlileg samskipti tortryggileg. Landsmenn eru skyldaðir til að standa undir kostnaði við ríkisútvarpið hvort sem þeir líkar betur eða verr. Fjárhagsleg staða þess er öruggari en þjóðkirkjunnar sem menn geta yfirgefið sé þeim misboðið af þjónum hennar. Heimssýn getur formaður félagsins auðveldlega eyðilagt með gálausu tali um grafalvarleg mál.