30.9.2005 1:49

Föstudagur, 30. 09. 05.

Ríkisstjórnarfundur klukkan 09.30 í Ráðherrabústaðnum en ákveðið hefur verið að föstudagsfundir ríkisstjórnarinnar verði þar.

Fór til Stykkishólms en klukkan 20.30 sátum við ráðherrar Sjálfstæðisflokksins þar fyrir svörum á þingi Sambands ungra sjálfstæðismanna í 90 mínútur.

Fyrirspurnir voru allar málefnalegar og snerust nokkrar þeirra um tónlistarhúsið, meðal annars um það, hvers vegna verið væri að reisa sérstakt óperuhús í Kópavogi samhliða tónlistarhúsi. Í tíð minni sem menntamálaráðherra sögðu forráðamenn Íslensku óperunnar, að þeir vildu vera áfram í Gamla bíói. Undir lok menntamálaráðherraferils míns í febrúar 2002 ákvað ég að það yrði hljómsveitargryfja í stóra tónlistarsalnum og ljósabúnaður, svo að unnt væri að sviðsetja óperu í salnum, en hann er hannaður til flutnings á tónlist en ekki óperum sérstaklega og nú hefur Portus ákveðið, að í honum verði einnig fullokmið konsertorgel, en það mun setja mikinn svip á salinn.

Ég var aðeins spurður einnar spurningar, það er um störf nefndar um breytingar á stjórnarráðinu og sagði ég, að hún væri um þessar mundir aða fara yfir tillögur frá fyrri árum um þetta efni, en ég væri viss um, að ráðuneytum yrði aldrei fækkað í sex, en því hefur verið hreyft.

Var komin heim aftur tæplega 01.00