20.9.2005 21:23

Þriðjudagur, 20. 09. 05.

Borgarstjórnarfundur hófst klukkan 14.00 og stóð til tæplega 18.00. Meðal umræðuefna var tillaga okkar sjálfstæðismanna undir forystu Kjartans Magnússonar um að reist skyldi stytta af Tómasi Guðmundssyni skáldi í Hljómskálagarðinum eða þar um slóðir. Áttum við von á því, að tillögunni yrði vel tekið og síðan unnið að framkvæmd hennar. Annað varð þó uppi á teningnum, því að Steinunn Valdís Óskarsdóttir tók þessu frekar þunglega vegna þess, hve margar styttur væru af körlum í borginni og fáar af konum undir forsjá Reykjavíkurborgar. Nefndi hún raunar aðeins eina brjóstmynd af íslenskri konu, það er af dr. Björgu C. Þorláksson, sem stendur við Odda, hús Háskóla Íslands, og var afhjúpuð við hátíðlega athöfn 17. júní 2001, þegar 75 ár voru liðin frá doktorsvörn Bjargar. Ég var við þessa athöfn og skil ekki vel, hvernig Reykjavíkurborg getur eignað sér eitthvað í þessari styttu, því að Félag íslenskra háskólakvenna, Kvenréttindafélag Íslands, Vísindafélag Íslendinga auk ættingja Bjargar stóðu að þessu framtaki og styttunni var valinn staður á svæði Háskóla Íslands. Ég gagnrýndi ræðu borgarstjóra og taldi hana vera að blanda tveimur óskyldum málum saman og sýna minningu Tómasar óvirðingu með því að setja tillögu um styttu af honum í þetta ljós. Borgarstjóri dró síðan heldur í land og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir reyndi að leggja henni lið með misheppnuðu gríni um borgarfulltrúa sjálfstæðismanna og ágæti R-listans, eins og hann væri enn við lýði.

Hitt helsta umræðuefnið var um Háskólann í Reykjavík milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar en þar hafði Dagur B. Eggertsson yfirlætisfulla og sjálfumglaða framsögu fyrir hönd meirihlutans. Enn var staðfest í umræðunum, hve flumbrungangurinn og auglýsingamennskan er mikil í kringum þetta mál. Ég áréttaði þá skoðun mína, að ekki væri nægilega vel hugað að umhverfisvernd með þessum ráðagerðum og hvatti enn til þess, að efnt yrði til umhverfismats. Rökræður um málið við Dag reyndust tilgangslausar, því að hann snerist til varnar á svo ómálefnalegan hátt.

Borgarstjórn kom saman klukkan 14.00 og lauk fundinum rétt fyrir 18.00 - sem sagt skikkanlegur fundartími.

Sérkennilegust voru viðbrögð Steinunnar Valdísar borgarstjóra við tillögu okkar sjálfstæðismanna undir forystu Kjartans Magnússonar um að reist yrði stytta af Tómasi Guðmundssyni skáldi og henni valinn staður í Hljómskálagarðinum eða þar um slóðir. Kjartan flutti málefnalega ræðu til stuðnings tillögunni. Ég er viss um, að flestir hafi búist við því, að hún sigldi kyrran sjó og hugmyndin yrði framkvæmd í fyllingu tímans. Nei, Steinunn Valdís kvaddi sér hljóðs og fann tillögunni í raun allt til foráttu, af því að það væru svo fáar styttur af konum í Reykjavík undir forsjá borgarinnar. Raunar aðeins ein af dr. Björgu Þorláksson við Odda, hús Háskóla Íslands.