8.9.2005 21:19

Fimmtudagur, 08. 09. 05.

Var klukkan 14.30 í varðskipinu Ægi, sem var að koma endurgert frá Póllandi, og efndi til blaðamannafundar til að kynna breytingar á skipinu og einnig áform landhelgisgæslunnar um kaup á nýju varðskipi og flugvél fyrir 3 milljarði af söluandvirði símans.

Þegar sagt var frá því síðastliðinn vetur, að tilboði Pólverja hefði verið tekið vegna endurgerðar brúar og íbúða áhafnar, var látið í veðri vaka, að með því væri verið að fara á svig við hagsmuni íslenskra skipamiða, en Slippstöðin á Akureyri bauð í verkið, án þess að fá það.

Ég ætla ekki að rifja upp þær umræður, en velti fyrir mér, hvort tekist hefði að ljúka verkinu hér á landi á jafnskömmum tíma og Pólverjar gerðu en nær 100 manns voru stundum við störf um borð í Ægi. Þegar ég skoðaði virkjanaframkvæmdir á Austurlandi fyrir nokkrum vikum, var mér sagt, að Slippstöðinni hefði gengið erfiðlega að fá menn hér og erlendis til að vinna það verk, sem hún tók að sér við fallgöngin að stöðvarhúsinu.

Sé í Morgunblaðinu í dag, að Slippstöðin hafi nýtt Margréti EA, frystitogara Samherja, sem gistiheimili í sumar fyrir 15 Pólverja, sem störfuðu tæpa þrjá mánuði hjá fyirrtækinu. Spyrja má: Er skynsamlegra að flytja Pólverja hingað til skipasmíða eða sigla skipi til Póllands til viðgerða það? Svarið hlýtur að ráðast af því, hvað er hagkvæmast fyrir þann, sem lætur vinna verkið.

Í frétt hljóðvarps ríkisins af blaðamannafundi mínum var sagt, að ég ætlaði að leggja fram frumvarp til nýrra laga um landhelgisgæslunnar í haust, ég sagði raunar, að ég ætlaði að gera þetta í vetur og finnst það raunsærri tímasetning en útlegging fréttamannsins.