6.9.2005 21:12

Þriðjudagur, 06. 09. 05.

Á ríkisstjórnarfundi, sem hófst klukkan 09.30 voru teknar sögulegar ákvarðanir um ráðstöfun á um 67 milljarða söluandvirði Símans og var þeim að meginhluta skipt til vegagerðar og hátæknisjúkrahúss fyrir utan greiðslu á erlendum skuldum. Þremur milljörðum verður varið til Landhelgisgæslu Íslands ( 2 milljarðar til varðskips og 1 milljarði til flugvélar) og einum milljarði til byggingar íslenskra fræða við hlið Þjóðarbókhlöðunnar, en hugmynd um slíkt hús ræddi ég nokkrum sinnum sem menntamálaráðherra og meðal annars á 90 ára afmæli Háskóla Íslands og er smíði þess nú tengd 100 ára afmæli skólans 2011 og 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar forseta.

Við sjálfstæðismenn héldum síðan þingflokksfund um málið klukkan 14.00 og ríkti þar mikil eindrægni um málið.

Af þingflokksfundinum fór ég klukkan rúmlega 15.00 út í ráðhús, þar sem borgarstjórn sat á fundi en 16.20 kvaddi borgarstjóri sér hljóðs utan dagskrár til að tilkynna 8 milljarða króna ráðstöfun ríkisstjórnarinnar á símafé til Sundabrautar og var bókaður fögnuður yfir þeirri ráðstöfun og öðrum framkvæmdum í Reykjavík fyrir þessa fjármuni.

Ég tók þátt í umræðum um framtíð Vatnsmýrarinnar og lýsti undrun yfir því, að nú væri það helsta kappsmál R-listans að efna til alþjóðlegrar hugmyndasamkeppni um skipulag í Vatnsmýrinni fyrir allt 100 milljónir króna, en það væri með öllu ótímabært, þar sem heimavinnan hefði ekki enn verið unnin nægilega vel.