25.9.2005 21:07

Sunnudagur, 25. 09. 05.

Veðurblíðan hélt áfram fyrir austan, þótt heldur væri kaldara vegna meiri norðanáttar - það var vetrarlegt á Hellisheiðinni, þótt ekki væri þar hálka og nú virðist styttast í nýi vegurinn í gegnum Svínahraun komi til sögunnar.

Hvert eru Baugsmiðlarnir að fara með þessum fréttum af tölvubréfum Styrmis Gunnarssonar? Og síðan er gefið til kynna, að þeir ætli að hætta að auglýsa í Morgunblaðinu. - Þetta er ekki ný aðferð hjá þeim, í ágústhefti Mannlífs stóð þetta:

„Sigurður (G. Guðjónsson) segir að gleggsta dæmið sem hann þekki um að forsvarsmenn Baugs hafi viljað beita valdi sínu á fjölmiðla sé tölvupóstur sem sér hafi borist haustið 2002. Það var eftir viðtal Þórhalls Gunnarssonar og Jóhönnu Vilhjálmsdóttur við Jóhannes í Bónus í Ísland í bítið á Stöð 2. Þáttastjórnendur lögðu fram gögn sem sýna áttu óeðlilega hækkun vöruverðs á leiðinni frá Bandaríkjunum í verslanir Baugs og gagnrýndu Baug mikið og deildu hart við Jóhannes. „Jón Ásgeir sendi mér tölvupóst strax eftir þáttinn og tilkynnti að Baugur myndi ekki auglýsa í fjölmiðlum Norðurljósa framar. Svo þakkaði hann fyrir að til væri Ríkisútvarp,“ segir Sigurður.“

Upplýst er, að Jónína Benediktsdóttir efndi til kvöldverðar með Ingibjörgu Sólrúnu og Stefáni Jóni í baráttu hennar til að upplýsa sem flesta um framferði Baugsmanna og leita eftir stuðningi. Jónína hefur hins vegar aldrei rætt við Davíð Oddsson. Sigmundur Ernir var einnig meðal þeirra, sem Jónína hitti, en hann var þá fréttastjóri á DV en nú á Stöð 2.

Ég er viss um, að þeim fjölgar stöðugt, sem átta sig ekki á því, hverju verið er að þjóna með því að ræða Baugsmálið á þann veg, sem Fréttablaðið hefur kosið að gera og greinilega undir samræmdi stjórn innan 365 miðla, eða Baugsmiðlanna, því að þeir boða sitt á hvað, að ný stórtíðindi séu í vændum. Hvers vegna er ekki látið nægja, að málið hafi sinn gang fyrir dómstólunum?