14.9.2005 20:12

Miðvikudagur, 14. 09. 05.

Flaug um hádegisbilið frá Kaupmannahöfn til Vilnius í Litháen og frá flugvellinum var okkur þátttakendum í dómsmálaráðherrafundi Norðurlanda og Eystrasaltslanda í 140 km í áttina að landamærum Hvíta Rússlands til bæjarins Druskininkau, sem er þekktur heilsulindarstaður.

Okkur var boðið í sérkennilegan sýningargarð, þar sem skoða mátti ýmsar minjar frá því að Litháen laut stjórn kommúnista og líkneski af Lenín og Stalín voru á torgum og í görðum. Hefur leifum þeirra verið safnað í þetta einkasafn. Var fróðlegt að fara þar um en erfitt vegna meiri fjölda af moskító-flugum en ég hef séð áður.