11.9.2005 22:05

Sunnudagur, 11. 09. 05.

Skruppum inn undir Þórmörk fyrir hádegi og ókum síðan að austan í fallegu og björtu veðri eftir miklar rigningar föstudag og laugardag, spáð er stormi á morgun en 13. september í fyrra kom svo mikið rok í Fljótshlíðinni, að vindmælar sprungu og fjárhús fuku með meiru.

Las skrýtna grein eftir Eirík Bergmann Einarsson í Morgunblaðinu, þar sem hann lætur eins og allt, sem ávannst í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks 1991 til 1995 sé Jóni Baldvini Hannibalssyni að þakka auk þess sem hann hafi myndað Viðeyjarstjórnina en ekki Davíð Oddsson. Þá sé það Alþýðuflokknum að þakka, að Ísland gerðist aðili að evrópska efnahagssvæðinu. Röksemdafærsla af þessu tagi er út í bláinn og einkennist af pólitískum barnaskap. Staðreynd er, að ekkert af þessu hefði náðst fram nema með því atkvæðamagni, sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði á alþingi. Alþýðuflokkurinn hefði ekki náð neinu af því, sem Eiríkur Bergmann telur svo lofsvert nema Sjálfstæðisflokkurinn hefði haft þá stefnu, sem hann fylgdi, Alþýðubandalag og Framsóknarflokkur fylgdu annarri stefnu og Alþýðuflokkurinn átti ekki kost á samstarfi um þessi mál við neinn annan en Sjálfstæðisflokkinn.