9.6.2010

Miðvikudagur, 09. 06. 10.

Mér hafa borist fyrirspurnir um örlög útilegukindar minnar, sem ítrekaðar tilraunir hafa verið gerðar til að ná í Þórólfsfelli undanfarna tvo vetur. Þórólfsfell er nokkuð fyrir austan Fljótsdal, innsta bæinn í Fljótshlíðinni, en þar keypti ég ána fyrir nokkrum árum. Þórólfsfell er nú hulið ösku.

Þrátt fyrir þrautseigju og ítarlegar tilraunir leitarmanna, jafnvel með aðstoð björgunarsveita, hefur ekki tekist að ná til byggða nokkrum ám, þar á meðal minni. Hefur hún því legið úti í tvo vetur og þótt mjög vör um sig, ef að henni er sótt.

Þegar gosið hafði staðið í nokkurn tíma og aska lagst yfir Þórólfsfell bárust fréttir af tveimur ám, sem héldu, hvor með sínu lambi, vestur með Fljótshlíðinni. Náði Jens, bóndi á Teigi, þeim við Þverá, næsta bæ við Hlíðarenda. Höfðu ærnar þá gengið tvo til þrjá tugi km undan öskunni.

Önnur var úr Fljótsdal, hin var mín. Viðar, nágranni minn í Hlíðarbóli, tók hana í hús og unir hún sér nú vel með ánum í túni hans og kann því vel að geta leitað í hús, ef svo ber undir. Hún og lambið eru vel á sig komin og vonandi verður þeim ekki meint af hamförunum. Holdarfar kindarinnar bendir til þess, að hún hafi ekki liðið skort á fjöllum.

Tvær ær, sem ég keypti í Fljótsdal bera öll merki um, að þær séu af forystukyni. Þær fara sínu fram og hafa báðir vakið umtal. Sú, sem hefur haldið sér í byggð, komst í Bændablaðið, þegar hún hafði sest að í fjárhúsi í Landeyjunum. Forystukind

Þegar blaðamaður hringdi í mig og vildi birta frétt af þeirri, sem flúði undan öskunni, ákvað ég hlífa henni við áreiti ljósmyndara. Ég vil ekki að hún verði hrakin aftur til fjalla. Ég tók hins vegar þessa mynd af henni og lambi hennar í dag.

ps. Í Víkverja Morgunblaðsins birtist 15. júní:

„Öskufallið getur þó átt á sér ánægjulegar og spaugilegar hliðar í vissum tilvikum. Þannig barst Víkverja til eyrna að þrjóskukind ein hefði óvænt komið til byggða, sem ekki hefði komið fram í tveimur síðustu leitum á afrétti bænda úr Fljótshlíðinni. Var nánast búið að afskrifa kindina en enginn gladdist meira en eigandinn, er hún birtist öskugrá af afréttinum en við hestaheilsu að því er virtist.

Af tillitssemi við hlutaðeiganda ætlar Víkverji ekkert að upplýsa um hverja er að ræða, en samgleðst bara yfir endurheimtunum með bæði eiganda og ánni.“