8.6.2010

Þriðjudagur, 08, 06. 10.

Síðdegis sat ég alþjóðlegu vísindaráðstefnuna á Ranga um loftslagsmál og áhrifin af loftslagsbreytingum. Hún er haldin með stuðningi NATO.

Ráðstefnugestum var boðið í skoðunarferð að Eyjafjallajökli og sat ég í bíl, þar sem Ármann Höskkapparuldsson var fararstjóri og fræddi okkur um gosið og einkum öskufallið. Merki þess urðu greinilegri eftir því sem við ókum nær Þórsmörk. Við fórum þó ekki þangað heldur upp að lóninu við Gígjökul.

Ingibjörg Jónsdóttir, dósent við Háskóla Íslands, sem skipulagði ráðstefnuna að hótel Rangá, tók þessa mynd af okkur Ármanni Höskuldssyni, Þorvaldi Þórarinssyni og Gísla Viggóssyni við Gígjökul.

Leiðin er greiðfær fyrir bíla, sem geta ekið yfir vatnsföll. Við vorum vöruð við að fara að lóninu, því að niður við það kynnu að vera eiturgufur. Okkur var bent á holu í sandinum. Þar hafði jaki bráðnað. Hættulegt er að stíga út á slíkar holur, því að menn geta auðveldlega sokkið í þær. Ármann sagði, að eftir Kötlugosið hefði slík sandbleyta verið mönnum og dýrum hættulegust.

Ær og lömb voru nokkuð austarlega og nálægt öskuþekjunni. Þess sjást merki sunnan Eyjafjalla, þar sem sauðfé hefur verið og er enn á beit, að flúorinn í öskunni er tekinn að veikja liðamót þeirra og ærnar eru haltar. 

Eftir skoðunarferðina á öskuslóðir ókum við niður í Landeyjahöfn. Gísli Viggósson hjá Siglingastofnun, hönnuður hafnarinnar, var með í för. Daginn áður hafði hann flutt fróðlegt erindi um þetta einstæða mannvirki á ráðstefnunni og nú sýndi hann okkur það í miklu blíðviðri. Herjólfur hefur ferðir um höfnina 21. júlí. Eiga margir eftir að fagna, hve vel hefur verið staðið að þessu verki og þeim breytingum á samgöngum við Eyjar, sem það veldur.