19.6.2010

Laugardagur, 19. 06. 10.

Mikið var um dýrðir í Stokkhólmi í dag, þegar Viktoría gekk að eiga Daniel, sem var einkaþjálfari hennar. Athöfnin var glæsileg og henni var sjónvarpað víða um heim en þó ekki hér á landi. Sjónvarpið hefur ekki heldur sýnt þætti í aðdraganda brúðkaupsins, sem lýsir undirbúningi þess og brúðhjónunum. Er einkennileg ráðstöfun að fara á mis við svo gott sjónvarpsefni. Hvort það er vegna fátæktar RÚV eða ritstjórnarstefnu, hef ég ekki heyrt. Ég er hins vegar viss um, að margir nýttu sér aðgang að norrænum sjónvarpsstöðvum til að fylgjast með hátíðarhöldunum og aðdraganda þeirra.

Einkennilegt er að lesa á forsíðu Fréttablaðsins í dag, að Davíð Oddsson seðlabankastjóri hafi lagt „það til á fundi með ríkisstjórninni skömmu eftir hrunið haustið 2008 að stofnað yrði til þjóðstjórnar.“ Þetta kemur fram í frétt um viðtal við Össur Skarphéðinsson í blaðinu, þar sem Össur segir, að það hafi „ekki hjálpað þeirri hugmynd að Davíð Oddsson hafi nánast ruðst inn á ríkisstjórnarfund og skellt henni á borðið.“

Þessi margræddi ríkisstjórnarfundur var haldinn 30. september, 2008. Þá höfðu bankarnir ekki hrunið og talið var unnt að bjarga þeim, þar sem ríkið hafði eignast 75% í Glitni-banka. Að segja fundinn haldinn skömmu eftir hrun bankanna er rangt. Davíð lagði ekki heldur til, að mynduð yrði þjóðstjórn heldur væri ástandið á þann veg, að slík stjórn kynni að eiga rétt á sér, staðan væri svo alvarleg. Loks er rangt, að Davíð hafi nánast ruðst inn á fund ríkisstjórnarinnar. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, bauð honum að sjálfsögðu á fundinn eða jafnvel mæltist til þess, að hann kæmi til að skýra ríkisstjórninni milliliðalaust frá stöðu bankamálanna. Miðað við það, sem síðan hefur fram komið, hefði Geir átt að bjóða Davíð fyrr á ríkisstjórnarfund til að ræða þetta mál.

Virðist sama hvort Össur túlkar afstöðu stjórnenda ESB til Íslands og skilyrði af hálfu Breta og Hollendinga vegna Icesave eða hann segir frá tæplega tveggja ára atburðum, sem eru skjalfestir, hann færir allt í þann búning, sem honum hentar hverju sinni. Hið einkennilega er, að blaðamenn hafi þetta allt eftir, án þess að sannreyna, hvort rétt sé með farið.