Fimmtudagur, 10. 06. 10.
Loksins rigndi duglega í Fljótshlíðinni í nótt og fram eftir degi, á meðan ég dvaldist þar. Svona mikil rigning hefur ekki fallið þarna lengi og verður forvitnilegt að sjá, hvaða áhrif hún hefur.
Í færslu hér sl. þriðjudag sagði ég, að þess sæjust merki sunnan Eyjafjalla að flúor í ösku væri tekinn að veikja liðamót í kindum og þær væru haltar. Nú hefur mér verið bent á, að bráðaáhrif vegna flúoreitrunar í sauðfé komi fram sem doði og ýmis einkenni frá taugakerfi og meltingarfærum, sjá http://www.mast.is/upplysingar/baendur/eldgosieyjafjallajokli. Langtímaáhrifin britist seinna, en langvarandi flúoreitrun geti skemmt tennur og bein sem eru að þroskast. Helti gæti því komið fram á næstu árum í því fé, sem núna er lömb og gemlingar.