25.6.2010

Föstudagur, 25. 06. 10.

Landsfundur sjálfstæðismanna var settur með snjallri ræðu Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins, í Laugardalshöll klukkan 16.00 í Landsfundur-1dag. Í salnum voru 1100 til 1200 manns. Var gerður góður rómur að ræðunni.

Yfirbragð salarins var léttara en áður við setningu landsfundar, þar sem ekki var raðað stólaröðum fremst við sviðið. Litir á skjalamöppu og í sal og sviði voru bjartir og sumarlegir, eins og hæfði árstíðinni. Gamli, klassíski ræðustóllin hafði ekki verið fluttur úr Valhöll. Dró það þó ekki í áhrifamætti þess, sem sagt var!

Ég gladdist að hitta þarna vin minn Kjartan Gunnarsson, sem Landsfundur Kjartabhefur glímt við alvarleg veikindi en er að ná sér á strik. Sagði hann þetta í fyrsta sinn, sem hann færi á mannamót síðan 14. nóvember. Hér sjáumst við sitja við borð með Sigríði, konu Kjartans, og Ármanni, frænda hennar. Við hlið mér, yst til vinstri á myndinni, situr Hafliði Pétur Gíslason, prófessor.

Að loknum upphafsræðum hófst hugmyndaþing, hið fyrsta, sem efnt er til á landsfundi. Má segja, að menn hafi rennt blint í sjóinn með það sem tilraun. Þegar upp var staðið klukkan 21.30, höfðu um 500 manns setið frá klukkan 18.00 í átta málefnahópum. Skiptist hver hópur á 10 manna borð, þar sem borðstjóri leiddi umræður í 50 mínútur, sem síðan voru dregnar saman. Á hverju borði voru þrjár slíkar lotur. Það kom í minn hlut að taka saman umræður um utanríkismál: 1. ESB, 2. Varnar- og öryggismál, 3. Norðurslóðir - loftslagsmál. Tæplega áttatíu manns tóku þátt í umræðum um utanríkismál.

Ég hafði blendnar tilfinningar til þess, að nýbreytni sem þessi yrði tekin upp á landsfundi. Eftir á að hyggja skilaði starfið góðum árangri, sem nýtist við stefnumótun á fundinum og í starfi málefnanefnda eftir hann.

Mér blöskrar að lesa frétt á visir.is, þar sem Þórlindur Kjartansson, fyrrverandi formaður SUS, segir landsfundinn „jók“, af því að þar gefist ekki færi til umræðna. Fyrir þessu eru engin haldbær rök. Þá tekur Magnús Árna Magnússon, stjórnmálafræðingur og nýráðinn rektor háskólans á Bifröst, að sér í fréttum Stöðvar 2 að hafa eftir ónafngreinum sjálfstæðismönnum, að þeir skilji ekki þörfina á fundinum.  Gerir rektorinn því skóna, að annar flokkur verði til á hægri vængnum vegna ESB-mála. Þetta er ekki traustvekjandi framganga, vilji rektorinn, að tekið sé mark á honum.