27.6.2010

Sunnudagur, 27. 06. 10.

Í dag skrifaði ég pistil um landsfund sjálfstæðismanna. Taldi ég hann sögulegan í fleiri en einu tilliti eins og sjá má hér.

Fróðlegt er að fylgjast með því, hvernig þeir bregðast við, sem telja sig eiga um sárt að binda innan Sjálfstæðisflokksins vegna samþykktar landsfundarins um ESB. Á ruv.is sagði til dæmis 27. júní:

„Ragnheiður Ríkharðsdóttir (svo!), félagi í Sjálfstæðum Evrópusinnum og þingmaður Sjálfstæðisflokksins (svo!), finnst dapurlegt ef aðeins rúmast ein skoðun innan Sjálfstæðisflokksins í þessum málum. Henni finnst það vera umhugsunarvert fyrir Sjálfstæðisflokkinn í heild sinni, sem hefur sagst vera lýðræðissinnaður umbótaflokkur. Það finnst henni ekki fara saman við að allir eigi að hafa eina skoðun.“

Ótrúlegt er að lesa þetta haft eftir þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Oft er tekist á um málefni á vettvangi flokksins, á landsfundi og annars staðar, og meirihluti ræður að lokum. Það jafngildir því ekki endilega, að allir eigi að hafa sömu skoðun í flokknum.

Sé hins vegar tekin ákvörðun í þingflokknum, sem miðar að því, að þingmenn flokksins standi saman, mælist aldrei vel fyrir, að einhver þeirra skerist úr leik.

Að gefa til kynna, að um það megi efast, að Sjálfstæðisflokkurinn sé lýðræðislegur umbótaflokkur að loknum þessum landsfundi er fráleitt.