5.6.2010

Laugardagur, 05. 06. 10.

Á mbl.is birtist í kvöld frétt um tölvupósta, sem sýna, að Jóhönnu Sigurðardóttur var fullkunnugt um, að Már Guðmundsson yrði ekki seðlabankastjóri, nema við hann yrði samið um hærri laun en forsætisráðherra. Einmitt þess vegna lagði Lára V. Júlíusdóttir, formaður stjórnar seðlabankans, til á sínum tíma, að laun Más yrðu hækkuð um 400 þúsund krónur. Loforðið til Más varð einnig tilefni þess, að frumvarpi Steingríms J. Sigfússonar um kjararáð var breytt sumarið 2009 í þingnefnd undir formennsku Helga Hjörvars. Steingrímur J. hefur sagt frumkvæði að breytingunni hafa komið úr forsætisráðuneytinu.

Fyrir tæpum mánuði, eða hinn 8. maí sl. skrifaði ég pistil hér á síðuna, þar sem ég leiddi líkur að því, að Jóhanna Sigurðardóttir hefði sagt alþingi ósatt um hlut sinn í launamáli Más. Pistill minn hófst á þessum orðum:

„Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon hafa haft uppi stór orð um nauðsyn þess, að farið sé að ábendingum í hrunskýrslunni. Þau hafa einnig hreykt sér af því að hafa skapað seðlabankanum nýjan og ábyrgðarmeiri starfsgrundvöll. Umræður um launamál Más Guðmundsson hafa leitt í ljós, að hyldýpi er á milli gjörða og orða Jóhönnu og Steingríms J., þegar kemur að því að opna stjórnsýsluna og upplýsa almenning um, hvað þar er að gerast. “

Fréttin á mbl.is um tölvubréf Más, þar sem hann vísar til samtals við Jóhönnu um launamál sín og að hann geti ekki sætt sig við 37% lækkun þeirra, birtist sama dag og lesa má í Morgunblaðinu yfirlýsingu Helga Hjörvars, formanns efnahags- og skattanefndar alþingis, um að Jóhanna Sigurðardóttir hafi ekki gefið Má nein „loforð um tiltekin launakjör.“

Eftir fréttina á mbl.is er ljóst, að Már Guðmundsson og Lára V. Júlíusdóttir verða að grípa til sérstakra ráðstafana til að endurreisa traust á yfirstjórn Seðlabanka Íslands. Jóhanna og Steingrímur J. hafa ekki skýrt frá málavöxtum á viðunandi hátt.  Jóhanna hefur auk þess sagt ósatt á alþingi. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hefur reynt að afvegaleiða almenning með yfirlýsingum sínum.

Atli Gíslason, þingmaður vinstri grænna, stjórnar um þessar mundir þingnefnd, sem rannsakar ávirðingar ráðherra og stjórnenda seðlabankans. Hún hefur sent settum ríkissaksóknara kæru vegna þess, að rannsóknarnefnd alþingis taldi stjórnsýslureglum ekki fylgt í seðlabankanum, þegar allt íslenska bankakerfið lék á reiðiskjálfi. Það þarf enga rannsóknarnefnd heldur almenna skynsemi og ábyrgð til að átta sig á því, að þingmenn hafa brýnna verkefni á sínum herðum en samskipti ráðherra og seðlabankastjóra haustið 2008.