12.6.2010

Laugardagur, 12. 06. 10.

Ef marka má lista yfir mál á dagskrá alþingis mánudaginn 14. júní, verður varnarmálalögum ekki breytt á þessu þingi. Stafar það af því, hve illa frumvarp utanríkisráðherra um breytingar á lögunum var úr garði gert. Alltof mikill losarabragur er á frágangi málsins. Augljóst er, að utanríkisráðuneytið er í einhverjum „haltu-mér-slepptu-mér leik“ í varnarmálum. Óttast embættismenn þess greinilega að missa einhvern spón úr aski sínum.

Þá má leiða líkur að því, að Össur Skarphéðinsson hafi ekki gefið málinu mikinn gaum, enda er hugur hans allur við ESB-leiðangur hans, sem kann einnig að renna út í sandinn eins og niðurlagning varnarmálastofnunar. Er hvorugt málið til vitnis um þaulskipulagða málafylgju af hálfu Össurar og ráðuneytis hans.

Össur er eini utanríkisráðherra Íslands, sem hefur ekki sótt tvo ráðherrafundi NATO í röð. Hann hafði of mikið að gera til að sækja ráðherrafundinn í Brussel skömmu fyrir áramót. Hann ber því við, að aska hafi hindrað hann að sækja fund í Tallinn 22 til 23. apríl, sem stenst illa miðað við, hvenær flug lokaðist héðan.

Hinn 21.apríl var allt flug héðan með eðlilegum hætti nema til London. Almennt er flogið frá Keflavík til Kaupmannahafnar, Stokkhólms eða Helsinki til að komast til Tallinn. Daginn eftir, sumardaginn fyrsta, 22.apríl lokaðist loftrými Bretlands. Þann 23.apríl fóru nokkar vélar frá Keflavík um morguninn en frá Kaupmannahöfn hefði Össur ekki komist um kvöldið.

Lene Espersen, utanríkisráðherra Dana, sætir harði gagnrýni fyrir að kjósa frekar að fara í frí með fjölskyldu sinni til Mallorka en sækja óformlegan fund utanríkisráðherra fimm norðurheimskautsríkja í Ottawa í mars sl., skömmu eftir að hún varð utanríkisráðherra. Þykir Dönum ill skiljanlegt, að hún hafi sleppt þessu tækifæri til að hitta Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.