2.6.2010

Miðvikudagur, 02. 06. 10.

í dag var sýnt viðtal mitt við Óskar Bergsson, fráfarandi borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, á ÍNN. Þar segir hann frá því, hvernig Einar Skúlason stóð að því að ná undirtökum á kjörfundi framsóknarmanna í Reykjavík með því að leggja fyrirvaralaust fram lista með 300 nýjum félagsmönnum.

Á bakvið Einar stóðu menn innan Framsóknarflokksins, sem telja sig hafa verið að færa hann meira inn á mölina eins og sagt er, en Guðmundur Steingrímsson er fulltrúi þeirra í þingflokki framsóknarmanna. Hann varð fyrstur til þess að kosningum loknum að ráðast á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, flokksformann, vegna úrslita sveitarstjórnakosninganna.  Telja ýmsir framsóknarmenn, að Guðmundur eigi að líta sér nær, þegar hann ræðir um afhroð Framsóknarflokksins í Reykjavík undir forystu Einars Skúlasonar.

Flaug klukkan 13.15 frá Keflavík með Icelandair til Kaupmannahafnar og þaðan til Helsinki með SAS.  Var kominn inn á ráðstefnuhótel í Hanaholmen klukkan 23.30 að finnskum tíma, 20.30 að íslenskum.