30.6.2010

Miðvikudagur, 30. 06. 10.


Ræddi í þætti mínum á ÍNN við Þórunni Sigurðardóttur, formann stjórnar Ago, sem skipuleggur innra starf í Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhöllinni, sem á að opna 4. maí 2011 með tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn Vladimirs Ashkenazys, þar sem hann stjórnar 9. sinfóníu Beethovens. Var lagt á ráðin um það fyrir mörgum árum, að þannig yrði staðið að fyrstu tónleikum í húsinu og er gleðilegt, að dagetning hefur nú verið ákveðin.

Að lokinni upptöku hélt ég upp í Reykholt í Borgarfirði, þar sem ég hitti Gunnar Eyjólfsson til að aðstoða hann við qi gong æfingar fyrir hóp, sem nýtur þar heilsudaga í Fosshótelinu að frumkvæði Guðna Þórðarsonar, sem enn er kenndur við Sunnu. Er gaman að hitta Guðna, hressan og áhugasaman um að láta að sér kveða í ferðamennsku undir merkjum menningar og heilsu.