14.6.2010

Mánudagur, 14. 06. 10.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, er hættur að öskra á sjálfstæðismenn í þingsalnum og kennir nú hestapest og eldgosi um, að ekki sé hagvöxtur í landinu. Hann viðurkennir einnig styrkinn af því, að ríkið var skuldlaust, þegar bankarnir hrundu. Það hefði ekki verið svo, nema vegna þess að sjálfstæðismenn héldu vel á ríkisfjármálum. Skyldi Steingrímur J. farinn að búa sig undir samstarf við sjálfstæðismenn?

Nú stefnir í, að leiðtogar ESB-ríkjanna gefi grænt ljóst á aðildarviðræður við Ísland á fundi sínum 17. júní. Utanríkisráðherrar ESB-ríkjanna gerðu það fyrir sitt leyti í dag. Lögfræðingar ESB segja stjórnmálamönnunum, að úr því að framkvæmdastjórn ESB telji Ísland hæft til viðræðna, geti þeir ekki annað en látið málið renna í gegnum dagskrá sína, þótt þeir hafi enga trú á því, að Íslendingar hafi í raun áhuga á aðild.

Sama dag og utanríkisráðherrar ESB-ríkjanna gáfu græna ljósið sitt í Lúxemborg birtist niðurstaða skoðanakönnunar, sem sýnir, að tæp 60% Íslendinga vilja, að ESB-umsóknin verði dregin til baka. Þá er einnig sagt frá því sama dag, að fjórir þingmenn úr jafnmörgum flokkum hafi lagt fram tillögu til þingsályktunar um að afturkalla ESB-umsóknina.

Eins og málum er nú háttað geta aðeins Jóhanna Sigurðardóttir eða Össur Skarphéðinsson komið í veg fyrir, að ESB-leiðtogarnir taki mál Íslands fyrir á fundi sínum 17. júní. Einangrun þeirra er hins vegar svo mikil, að þeim dettur hvorki í hug að taka tillit til skoðana almennings á ESB-umsókninni né afstöðu þingmanna.