7.6.2010

Mánudagur, 07. 06. 10.

Síðdegis fór ég í hótel Rangá, þar sem haldin er ráðstefna sérfræðinga undir merkjum NATO og fleiri um loftslagsmál, öryggismál, norðurslóðir og fleira. Ég flutti þar stutta ræðu um endurnýjun tækjakosts landhelgisgæslunnar og hugmyndafræðina að baki honum.

Jóhanna Sigurðardóttir ræddi við Sigmar Guðmundsson í Kastljósi um launamál Más Guðmundssonar. Við öllum blasir, að óhugsandi er, að ákvarðanir um að skapa seðlabankastjóra sérstöðu innan launakerfis ríkisins með breytingu á lögum um kjararáð hafa ekki verið teknar af öðrum en Jóhönnu Sigurðardóttir eða að minnsta kosti með vitund hennar. Hafi svo ekki verið, er ástæða til að spyrja, hvað í ósköpunum Jóhanna sé að gera í forsætisráðuneytinu.

Jóhanna lét eins og hún vissi ekki, að frumvarpi fjármálaráðherra um kjararáð hafði verið breytt á þingi sumarið 2009 að ósk forsætisráðuneytisins, til að unnt væri að koma til móts við óskir Más Guðmundssonar. Hún hefði fyrst áttað sig á þessu, eftir að frumvarpið var orðið að lögum, þá hefði hún lesið lagatextann og séð, að hann heimilaði ekki hækkun á launum Más! Að forsætisráðherra leyfi sér að bera þetta á borð fyrir landsmenn í sjónvarpsviðtali. gerir þetta mál allt enn verra.

Jóhanna undrar sig á því, að rætt hafi verið um þetta mál, ósannindi hennar og dæmalaust klúður í stjórnsýslu, í nokkrar vikur. Það sé aðeins gert vegna óvildar Davíðs Oddssonar í sinn garð. Þetta neyðaróp Jóhönnu verður henni ekki til bjargar, enda á það ekki við nein rök að styðjast. Lengd umræðnanna stafar af því, að í hvert sinn sem Jóhanna segir eitthvað um málið, verður tvískinnungur hennar ljósari. Segi menn ekki satt í upphafi og haldi sig ekki við staðreyndir, lenda þeir í stöðu Jóhönnu í Kastljósinu, að þykjast ekkert vita og verða eins og álfar úr hól auk þess að ráðast á aðra með svívirðingum.

Þá greip Jóhanna enn til þess ráðs, að segja tillögur á borði hjá sér, sem eigi að koma í veg fyrir, að eitthvað sambærilegt hneyksli geti endurtekið sig. Heldur hún virkilega,  að það breyti einhverju um stöðu hennar nú?