11.6.2010

Föstudagur 11. 06. 10.

Nú dregur að þinglokum. Fréttir herma, að stjórnarflokkarnir hafi loks áttað sig á því, að þeir geta ekki haft skoðanir sjálfstæðismanna á stjórnlögum þjóðarinnar að engu. Eigi að ná samstöðu um endurskoðun stjórnarskrárinnar, þarf að sýna vilja til þess í verki strax frá fyrsta degi. Til þessa hefur Jóhanna Sigurðardóttir ætlað að sýna hreinan yfirgang. Hvað eftir annað hefur verið tekið fast á móti. Hún kemst ekki lengra, án þess að taka mið af óskum annarra.

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur tekið saman mikið magn gagna um Icesave-málið og leggur fram tillögu til þingsályktunar um, að stofnað verði til rannsóknar á málinu. Í upphafi hennar segir:

„Alþingi ályktar að skipuð verði sérstök rannsóknarnefnd á vegum Alþingis sem rannsaka skuli embættisfærslur og ákvarðanir íslenskra stjórnvalda og samskipti þeirra við bresk og hollensk stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Evrópska efnahagssvæðinu. Skal nefndin skipuð þremur sérfræðingum á þeim sviðum sem rannsóknin nær til.

Rannsóknarnefndin skal leggja mat á hvort einstakir ráðherrar eða embættismenn á þeirra vegum hafi fylgt þeim lagareglum sem um störf þeirra gilda, brotið starfsskyldur sínar eða gerst sekir um mistök eða vanrækslu í hagsmunagæslu fyrir íslenskra ríkið og íslensku þjóðina og eftir atvikum leggja mat á hverjir bera á þeim ábyrgð.“


Ekki er ólíklegt, að Björn Valur Gíslason, brúða búktalarans Steingríms J., hafi haft spurnir af þvi, að Sigurður Kári væri að semja og taka saman efni vegna þessarar tillögu og þess vegna gert hina svívirðilegu árás á hann á þingi miðvikudaginn 9. júní og vænt hann um að hafa þegið greiðslur frá bresku lögmannsstofunni Mischon de Reya, sem gagnrýndi, hvernig Steingrímur J. hélt á Icesave-málinu með Svavari Gestssyni.

Ársás Björns Vals sýnir, hve mjög Steingrímur J. og félagar óttast, að óhlutdrægir rannasakendur semji skýrslu um meðferð Icesave-málsins í þeirra höndum.