15.6.2010

Þriðjudagur, 15. 06. 10.

Jón Gnarr varð borgarstjóri Reykjavíkur í dag og flutti andkannalega ræðu, þegar hann tók við embættinu. Hún átti líklega að vera fyndin. Að stjórna borg er alvörumál. Það getur vissulega farið fyndnum mönnum vel úr hendi. Þeir Jón og Dagur B. Eggertsson hafa sýnt, að auðvelt er að verða hlægilegur í valdabrölti í borgarstjórn. Dagur B. verður áfram hlægilegur, spurning um Jón Gnarr.

Leynisamningurinn, sem þeir Jón Gnarr og Dagur B. gerðu hefur verið birtur. Hann er átta blaðsíður. Undarlegt er, hve Samfylkingin er upptekin að því bæði í borgarstjórn og ríkisstjórn að ráðskast með stjórnkerfið sjálft í stað þess að láta hendur standa fram úr ermum í þágu borgaranna. Nú á enn að taka til við að stokka upp í ráðhúsinu. Kostnaður við þetta brölt er mikill fyrir utan að óvissa meðal starfsmanna veldur ávallt röskun.

Jóhanna Sigurðardóttir er einstaklega klaufaleg í stjórnsýslu sinni. Launamál Más Guðmundssonar eru til marks um það. Nú hefur hún lagt fram minnisblað í ríkisstjórn, þar sem hún tekur fram fyrir hendur rannsóknarnefndar alþingis og vill upp á sitt eindæmi láta rannsaka einkavæðingu bankanna í þingnefnd, sem hefur lögskipað hlutverk. Þingnefndinni varð á í messunni, þegar hún beindi málum til ríkissaksóknara, sem alls ekki gátu verið saknæm. Taki nefndin að sér að sinna einkaáhugamáli Jóhönnu, fer nefndin endanlega með trúverðugleika sinn.

Jóhanna heimtaði að fá að mæla fyrir frumvarpi um breytingu á stjórnarráðinu, sem er mikil hrákasmíði og aðeins til tjóns, verði það að lögum. Það er jafnvel verra en frumvarpið um varnarmálastofnun frá Össuri Skarphéðinssyni, sem hann heimtar að verði að lögum.