13.6.2010

Sunnudagur, 13. 06. 10.

Fróðlegt er að kynnast sjónarmiðum Norðmanna, þegar ný skoðanakönnun sýnir meiri andstöðu við aðild að Evrópusambandinu meðal þeirra en nokkru sinni fyrr, það er um 70% þeirra, sem taka afstöðu. Hin neikvæða afstaða mótast af ótta við efnahagsástandið á evru-svæðinu. Lífskjör í Noregi mundu versna við aðild og það falli ekki að norskum hagsmunum að taka upp evru. Auk þess sé ESB orðið að tákngervingi böðuls velferðarkerfisins með sífelldum kröfum frá Brussel um að skera niður útgjöld til velferðarmála. Um þetta allt og margt fleira má fræðast á Evrópuvaktinni eins og sjá má hér.

Einhverjir kunna að minnast þess, að ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. kennir sig við norræna velferð. Hún hefur hins vegar einnig á stefnuskrá sinni að troða íslandi inn í ESB, þar sem Norðmenn telja, að nú sé gerð markviss aðför að velferðarkerfinu.

Enn sannast, að ekki stendur steinn yfir steini í stefnu ríkisstjórnarinnar, þegar litið er á gjörðir hennar.