23.6.2010

Miðvikudagur, 23. 06. 10.

Evrópuvaktin skýrir frá því í dag, að utanríkisráðuneytið hafi boðað hóp fjölmiðlamanna til fundar í dag, til að Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra og aðalviðmælandi Íslendinga við ESB, fengi tækifæri til að fylgja eftir ferð manna úr hópnum til Brussel á dögunum í boði ESB.

Skipuleg innræting af þessu tagi mun aukast, þar til yfir lýkur í aðlögunarferli Íslands að ESB á grundvelli ályktunar alþingis frá 16. júlí 2009. Í Brussel líta embættismenn ESB á íslenska embættismenn og utanríkisráðuneytið sem samherja í áróðursstríðinu, sem er að hefjast. Það sé skylda ríkisstjórnar umsóknarríkis að uppfræða þegna sína um ágæti ESB og þau gæði, sem bíði innan sambandsins. Staðfestir fundurinn í dag þá skoðun, að utanríkisráðuneytið sé í raun gengið í ESB og líti frekar á hlutverk sitt að koma öllum Íslendingum þangað inn en halda þannig á hagsmunum þjóðarinnar, að í odda skerist, standi málefni til þess.


Þess er ekki getið í frétt Evrópuvaktarinnar, að engum, sem rita á þá vefsíðu, var boðið til innrætingarfundarins. Er þó til síðunnar stofnað í þeim eina tilgangi að segja fréttir af Evrópumálum. Engum öðrum fjölmiðli hér er haldið úti í þeim eina tilgangi. Hér skal ekki leitt getum að því, hvers vegna utanríkisráðuneytið sá ekki ástæðu til að bjóða fulltrúa Evrópuvaktarinnar til þessa ESB-fundar. Þó skulu settar fram tvær tilgátur: 1. Ráðuneytið telur engu við þekkingu þeirra, sem á síðuna rita, að bæta. 2. Ráðuneytinu er ljóst, að innræting þess hrín ekki á umsjónarmönnum síðunnar.