Sunnudagur, 20. 06. 10.
Ég sló í dag hér í Fljótshlíðinni og þurfti ekki að vera með rykgrímu, enda hefur rigningin bundið öskuna. Finnst mér gróðurinn meiri en áður hefur verið og þegar ég lít úr hlíðinni niður að Þverá og yfir í Landeyjarnar sýnist mér aurarnar grænni en áður. Yfir þessu öllu gnæfir svartur Eyjafallajökullinn eins og sjá má á þessari mynd, sem ég tók í kvöld.
Furðulegt er, að enginn skuli leita álits Jóhönnu Sigurðardóttur eða Steingríms j. Sigfússonar á orðum Össurar, sem Fréttablaðið túlkar á þann veg á forsíðu sinni í gær, að hann vilji, að mynduð sé þjóðstjórn. Auðvitað getur verið, að einhverjir hafi spurt þau, en þeim hafi ekki þótt ástæða til að segja neitt um málið. Segir það í raun meira en mörg orð um áhrif eða réttara sagt áhrifaleysi Össurar í ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum.