7.11.2015 16:00

Laugardagur 07. 11. 15

Samtal mitt við Elínu Maríu Björnsdóttur leiðtogaþjálfara hjá FranklinCovey á ÍNN hinn 4. nóvember er komið á netið og má sjá það hér.  Boðskapurinn sem Elín María flytur á erindi inn í skólana. Það má ekki loka þeim fyrir aðferðum sem reynst hafa vel til að styrkja einstaklinga á öllum aldri á öllum sviðum þjóðlífsins.

Mikið fjölmenni var í gær í Listasafni Íslands þegar sýning á höggmyndum Nínu Sæmundsson, Listin á hvörfum, var opnuð. Nína Sæmundsson (1892–1965) var fyrsta íslenska konan sem gerði höggmyndalist að ævistarfi. Hún er fædd í Nikulásarhúsum Fljótshlíð, skammt innan við Hlíðarenda en þar er nú minningarlundur um hana. Í kynningu á sýningunni segir meðal annars:

„Á þriðja áratug síðustu aldar bjó hún í helstu listamiðstöðvum hins vestræna heims, í Róm, París og New York en saga hennar er öðrum þræði saga mikilla sigra, en um leið harmrænna örlaga sem höfðu mikil áhrif á líf hennar. Nína bjó frá upphafi yfir miklum viljastyrk og brennandi áhuga á listum og þróaði sinn klassíska stíl, sem hún var trú lengi framan af ferlinum, en þar sameinar hún hið stórbrotna og hið innilega. Hin uppreista manneskja varð eitt af helstu þemum hennar, ásamt andlitsmyndum, sem hún gerði að sérgrein sinni.“

Hrafnhildur Schram listfræðingur hefur skrifað bókina Nína S. og kom hún út í gær hjá Crymogeu. Forsíðu bókarinnar prýðir listaverkið Afrekshugur sem er yfir anddyri Waldorf Astoria hótelsins á Park Avenue í New York. Hinn 10. október 2000 var efnt til athafnar í hótelinu „til að minnast þess, að 1931 vann Nína Sæmundsson myndhöggvari samkeppni um styttu yfir anddyri þessa fræga hótels. Þarna var Ríkey Ríkharðsdóttir frænka Nínu, sem hefur beitt sér fyrir því, að minning hennar væri í heiðri höfð. Ég sagði nokkur orð og einnig Eric Lang hótelstjóri auk þess sem Egill Ólafsson og félagar fluttu tvö lög,“ segir í dagbók minni hér á síðunni.