29.11.2015 17:00

Sunnudagur 29. 11. 15

Í dag birtust sjónvarpsmyndir af átökum á Place de la République í París milli lögreglu og aðgerðasinna sem vildu draga athygli að málstað sínum vegna loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem er að hefjast í borginni með þátttöku um 40.000 manna. Aðgerðaganga var einnig í London og vafalaust víða annars staðar í heiminum.

Þegar ráðstefna var haldin um þetta mál í Kaupmannahöfn fyrir nokkrum árum náðist enginn árangur. Nú segir í útvarpsfréttum að árangursleysið megi ef til vill rekja til þess að leiðtogar ráðstefnuríkjanna sátu hana á lokastigum hennar. Nú komi þeir til fundar í upphafi ráðstefnunnar og lofi það góðu um að niðurstaða hennar verði önnur en í Kaupmannahöfn. Þá kunni hryðjuverkin í París hinn 13. nóvember að stuðla að samkomulagi um loftslagsmál.

Þetta er undarlegur spuni í tilefni af ráðstefnu um mál þar sem til þessa hefur ekki náðst að sameinast um neitt sem skiptir sköpum varðandi viðfangsefnið. Grunur vaknar um að verið sé að búa í haginn fyrir enn eina málamyndarsniðurstöðuna.

Héðan fara til þessa fundar 15 manna nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar, þrír framsóknarráðherrar eru í hópnum: forsætisráðherra, utanríkisráðherra og umhverfisráðherra. Reykjavíkurborg sendir tólf fulltrúa á ráðstefnuna, þá verða sex þingmenn í París, fulltrúar frá Akureyrarbæ, Háskóla Íslands, HS Orku, Landsvirkjun, Náttúruverndarsamtökum Íslands og Orku náttúrunnar ef marka má það sem segir í dag á ruv.is. Þar er ekki minnst á forseta Íslands en einhvers staðar var sagt að hann yrði einnig í París.

Miðað við það sem tíundað er hér að ofan verða að minnsta kosti 40 fulltrúar frá Íslandi á ráðstefnunni í París. Þegar heim kemur verður öllum kappsmál að færa jákvæð rök fyrir þátttöku sinni og mun það setja þann svip á frásögnina af ráðstefnunni að hún hafi skilað góðum árangri. Þannig var til dæmis talað um niðurstöðu Kyoto-ráðstefnunnar um loftslagsmál 1997. Nú sjá menn að Kyoto-ráðstefnan skilaði ekki neinu sem máli skiptir í stóra samhengi hlutanna.

Þeir sem halda að tímasetning þátttöku fyrirmenna í ráðstefnu eða hryðjuverk unnin skömmu fyrir hana skipti sköpum um inntak niðurstöðu sem ætlað að skuldbinda ríki lagalega til að gera ráðstafanir sem tryggja að hlýnun jarðar verði innan við 2° telja greinilega að allt annað ráði afstöðu manna til efnis ráðstefnunnar en málefnaleg afstaða til þess. Til hvers að kalla 40.000 manns til Parísar ef svo er?