1.11.2015 16:00

Sunnudagur 01. 11. 15

Vörnin fyrir að halda úti ríkisútvarpinu tekur á sig ýmsar myndir á eyjunni.is er þetta haft eftir Helga Hjörvar, þingflokksformanni Samfylkingarinnar:

„Þau samfélög þar sem að viðskiptalífið er allsráðandi í fjölmiðlum, það eru sannarlega fátækari samfélög og að eru samfélög þar sem er miklu meiri hætta spillingu. Á því að viðskiptalífið nái miklum sterkari tökum, til dæmis á pólitíkinni. Og það að hafa sterka almannaþjónustu, hvort sem það er Ríkisútvarpið eða með því að styðja fjölmiðla almennt með slíkri starfsemi, það sé til þess að draga úr valdi viðskiptalífsins, draga úr spillingu og styrkja og bæta stjórnmálamenningu og aðhald með okkur sem eru í pólitíkinni.“

Ekki kemur fram um hvaða samfélög Helgi Hjörvar talar eða hvaða fjölmiðla sem eru einkareknir en veita stjórnvöldum og spillingaröflum ekki aðhald. Helgi er í flokki sem háði „heilagt“ stríð gegn fjölmiðlalögum og stóð þar með einareknu fjölmiðlaveldi sem veitt hefur eigendum sínum forskot í baráttu við réttarvörslukerfið við rannsóknir efnahagsbrota sem snerta eigendurna.

Þessi ummæli þingflokksformanns Samfylkingarinnar sýna enn að til varnar starfsemi ríkisútvarpsins er gripið til innantómra frasa í anda yfirlætis eða elítusjónarmiða sem eiga engan almennan hljómgrunn en falla að síminnkandi áhorfi og hlustun á ríkisfjölmiðlinn.

Þá segir einnig á eyjunni.is:

„Helgi sagð það löngum hafa verið áhugamál Sjálfstæðisflokksins að þrengja að starfsemi RÚV og því aðhaldi sem það getur veitt. Ný yfirstjórn hafi hinsvegar sýnt að hún leggi nútímalegar áherslur í rekstri sínum, til að mynda með því að selja lóðina í Efstaleiti og leigja hluta útvarpshússins undir aðra starfsemi.“

Í þessum orðum er alið á þeim ósannindum að sjálfstæðismenn krefjist aðgætni í rekstri ríkisútvarpsins vegna skoðana sem þar birtast. Hvernig rímar þetta við afstöðu Illuga Gunnarssonar, ráðherra stofnunarinnar, um þessar mundir? Einfaldlega alls ekki, Illugi vill meira opinbert fé til hins opinbera hlutafélags. Þá er sérkennilegt að telja það útvarpsrekendum helst til meðmæla að þeir selji lóðir og leigi út húsnæði. Eykst áhorf eða hlustun við það?

Samfylkingin hefur verið óheppin með baráttumál þau 15 ár sem hún hefur starfað. Málflutningur þingflokksformannsins til varnar ríkisútvarpinu sýnir að hann hefur ekkert lært af reynslunni í því efni. Hann er fastur í miðlunartækni fortíðar.