24.11.2015 21:00

Þriðjudagur 24. 11. 15

Vladimír Pútín sendi flugherinn til Sýrlands til að styrkja stöðu sína fyrir botni Miðjarðarhafs. Í Rússlandi var herförin kynnt á þann veg að um samfellda sigurgöngu yrði að ræða. Nú hefur rússneskri farþegavél með 224 um borð verið grandað með sprengju yfir Sinaí-skaga. Ríki íslams segist standa að baki verknaðinum. Í dag skutu tvær tyrkneskar F-16 orrustuvélar niður rússneska Su-24 orrustuþotu sem Tyrkir segja að hafi rofið lofthelgi þeirra.

Pútín dró von úr viti að viðurkenna að sprengju hefði verið laumað um borð í farþegaþotuna. Hann leit á það sem persónulegt áfall fyrir sig. Síðan neyddist hann til að skrúfa fyrir allar sólarlandaferðir Rússa til Egyptalands en tug þúsundir þeirra fara þanað til að stytta rússneska veturinn.

Eftir að Su-24 þotunni hafði verið grandað sagði Pútín fráleitt að hún hefði rofið tyrkneska lofthelgi. Hann sagði Rússland hafa fengið „stungu í bakið“ frá „samverkamönnum hryðjuverkamanna“. Þetta mundi hafa „alvarlegar afleiðingar fyrir samband Tyrklands og Rússlands“.  Hann harmaði að Tyrkir hefðu snúið sér til NATO. „Vilja þeir að NATO þjóni Ríki íslams?“ Hann sakaði Tyrki um að skipa sér við hlið Ríkis íslams.

Síðdegis lýsti NATO stuðningi við Tyrki, þeir hefðu gripið til varna eftir að lofthelgi þeirra var rofin.

Pútin hefur ekki lengur ímynd hins ósigrandi leiðtoga. Stóru orðunum sem hann lét falla um Tyrki hlýtur hann að fylgja eftir á einn eða annan hátt. Hættan á stigmögnun í samskiptum Tyrkja og Rússa er vissulega fyrir hendi og var það áður en til þessa atviks kom.

Pútín hefur um nokkurt skeið sent flugvélar sínar í ögrandi ferðir vítt og breitt í nágrenni Evrópulanda. Fréttir hafa meðal annars borist um flug rússneskra sprengjuvéla umhverfis Ísland. Þær hafa ögrað Eystrasaltsþjóðunum og Bretum auk þess að æfa sprengjuárásir á Gotland og Borgundarhólm.

Þegar menn leika sér að eldi eykst hættan á að þeir brenni sig. Þetta hefur Pútín reynt. Færir hann sig enn upp á skaftið eða dregur hann sig í hlé?