10.11.2015 16:00

Þriðjudagur 10. 11. 15

Helmut Schmidt, fyrrverandi kanslari Þýskalands, andaðist í Hamborg þriðjudaginn 10. nóvember 96 ára að aldri. Á sínum tíma hitti ég hann nokkrum sinnum og hlustaði á hann flytja ræður á fundum. Hann er með eftirminnilegustu mönnum. Hann var kanslari jafnaðarmanna (SPD) í átta söguleg ár frá 1974 til 1982 og tókst meðal annars á við andstæðinga innan eigin flokks vegna eindregins stuðnings hans við bandarískar, meðaldrægar kjarnorkueldflaugar í Evrópu.

Áður en ágreiningurinn varð sem mestur um þær hafði Schmidt tekið slaginn í Þýskalandi vegna nifteindarsprengjunnar sem sagt var að eyddi lífi en ekki tækjum og mannvirkjum. Var mikill hræðsluáróður stundaður vegna hennar enda var hún litinn illu auga frá Kreml. Schmidt vænti þess að Jimmy Carter Bandaríkjaforseti mundi fylgja ákvörðuninni um að flytja nifteindarsprengjur eftir. Hið gagnstæða gerðist, Carter féll frá ákvörðuninni. Hlustaði ég á Schmidt flytja magnaða og stóryrta ræðu af þessu tilefni þar sem hann vandaði Carter ekki kveðjurnar og velti fyrir sér hvernig treysta mætti ríki sem lyti forystu manns sem virtist láta guðlega vitrun ráða því hvernig hann kæmi fram við bandamenn sína og skildi þá eftir eins og þorska á þurru landi.

Þegar hann hóf stjórnmálaþátttöku sína og varð formaður þingflokks jafnaðarmanna á sjöunda   áratugnum ávann hann sér viðurnefnið „Schmidt-Schnauze“ eða Schmidt kjaftfori, áður sat hann í borgarstjórn Hamborgar og var þá kallaður „Macher“ eða verkmaðurinn. Honum þótti lítið koma til þeirra sem veltu vöngum um hugmyndafræði og framtíðarsýn. Eftir Schmidt er haft: „Sá sem sér sýnir ætti að fara til læknis.“

Að loknum hinum pólitíska ferli varð hann ritstjóri vikublaðsins Die Zeit í Hamborg. Á meðan hann hafði heilsu og krafta sótti hann ritstjórnarfundi blaðsins. Sagt er að þá hafi allir á ritstjórninni reynt að troða sér inn í fundarherbergið til að hlusta á skarpa greiningu hans á viðburðum líðandi stundar. Skrifaði hann forsíðugrein í blaðið brást ekki að salan jókst.

Hann var stórreykingamaður frá árinu 1932 þegar hann deildi í fyrsta sinn sígarettu með skólasystur sinni, Hannelore Glaser sem jafnan var kölluð Loki. Þau áttu samleið sem hjón frá 1942 í 68 ár eða þar til hún andaðist árið 2010. Schmidt reykti mentol-sígarettur og þegar rætt var að ESB kynni að banna þær er sagt að hann hafi keypt 38.000 stykki af þeim.