2.11.2015 16:00

Mánudagur 02. 11. 15

Guðmundur Andri Thorsson, dálkahöfundur Fréttablaðsins, birtir árlega málsvörn sína fyrir ríkisútvarpið í dálki sínum í dag, 2. nóvember 2105. Hann telur að ríkisútvarpið búi við „óttastjórnunarstíl Davíðsáranna sem við þurfum að losa okkur við til að skapa heilbrigðara andrúmsloft í samfélaginu“. Úrræði Guðmundar Andra er einfalt: ríkisútvarpið fái þá fjármuni sem það krefst!

Rökin sem notuð eru til bjargar ríkisútvarpinu verða sífellt langsóttari en Guðmundur Andri segir að óttastjórnun sé „markviss aðferð við að skjóta fólki skelk í bringu, stjórna umfjöllun um sig og halda stofnuninni í heljargreipum“. Ríkir þetta andrúmsloft á ríkisfjölmiðlinum af því að krafist er aðhalds í fjármálum hans?

Guðmundur Andri er skrautfjöður í fjölmiðlahatti Jóns Ásgeirs. Hann segir um einn anga þess fjölmiðlaveldis: „Stöð tvö á sér miklu glæstari sögu og hefðir í framleiðslu á leiknu innlendu sjónvarpsefni en RÚV, þar sem einhver þyrrkingur hefur alltaf ríkt á því sviði. Þjóðmálaumræða er líka með ágætum á Stöð tvö og um skemmtiefnið þarf ekki að fjölyrða.“

Dálkahöfundurinn segir einnig: „því að það getur ekki talist vera eðlilegt rekstrarumhverfi slíkri stofnun að vita aldrei hvað dyntóttir og hefnigjarnir stjórnmálamenn láta af hendi rakna, hverju sinni – eins og framlög til þjóðarfjölmiðilsins eigi að vera undir velvild einstakra stjórnmálamanna komin“. Með þessum orðum er skautað fram hjá þeirri staðreynd að vandinn við rekstur ríkisútvarpsins er hvernig stjórnendur þess fara með hina opinberu fjármuni. Í stað þess að ræða þá hlið mála er bitið í hina færandi hönd og hún borin sökum.

Hverjir eru hinir „dyntóttu og hefnigjörnu“ stjórnmálamenn? Af hverju er hópur fólks undir þessa sök seldur í stað þess að nafngreina illmennin? Er tilgangurinn með þögninni að hindra að unnt sé að sannreyna sleggjudóminn?

Niðurstaða Guðmundar Andra er þessi:

„Fólk sem vill leggja niður RÚV er andvígt hinum sameiginlega vettvangi. Það vill þjóðfélag sundurgreiningar, þar sem hægri menn hafa sína fjölmiðla og vinstri menn sína og svo talist fólk aldrei við, hafi engan sameiginlegan grundvöll að standa á en velji hver sinn veruleika, hver sínar staðreyndir, og svo gargi fólk hvert á annað.“

Þessi orð ber væntanlega að skilja á þann veg að ríkisútvarpið skapi sameiginlegan umræðuvettvang. Hafi svo verið er sá tími fyrir löngu liðinn. Þar ekki við þá sem standa utan stofnunarinnar að sakast.