12.11.2015 18:00

Fimmtudagur 12. 11. 15

Flaug utan í morgun til ekki-Schengen-landsins Bretlands. Á flugvellinum myndaðist nokkur röð þegar farþegar úr vél Icelandair voru látnir skrá sig inn í landið með því að fara í gegnum mannlaus landamærahlið þar sem vélmenni afritaði opnu í vegabréfinu og viðkomandi var skipað að standa á gullituðum fótsporum og horfast í augu við vélmennið sem smellti af andlitsmynd og hleypti í gegn ef allt var gert eftir kúnstarinnar reglum. Þeir sem vélmennið hafnaði fóru í gegnum hlið hjá landamæraverði. Hvort einhver var endalega stöðvaður veit ég ekki.

Vegna aðildar að ESB geta Bretar borið upplýsingarnar sem þeir afla saman við gagnagrunna Schengen-samstarfsins. Schengen-ríki herða hvert af öðru eftirlit við landamæri sín. Svíar tóku upp tímabundið eftirlit um hádegið í dag. Á stjornarrad.is hefur ekki birst nein viðvörun til Íslendinga á leið til Svíþjóðar um nauðsyn þess að sýna skilríki við komuna til Svíþjóðar. Er eftirlitið ekki framkvæmt á flugvöllum? Fari menn um Eyrarsundsbrúna eða með ferjum frá Danmörku og Þýskalandi eru þeir krafðir um skilríki af Svíum. Ökuskírteini dugar ekki, að minnsta kosti ekki á ferjum Stena Line.

Meginrök Halldórs Ásgrímssonar og Þorsteins Pálssonar fyrir Schengen-aðild Íslands á sínum tíma voru að annars yrðu Íslendingar að sýna vegabréf á ferðum milli Norðurlanda.

Vel heppnaður landsfundur sjálfstæðismanna var haldinn fyrir þremur vikum, skömmu áður var skýrt frá ákvörðunum um leið Íslendinga úr fjármagnshöftum. Síðan hafa verið gerðir stöðugleikasamningar á vinnumarkaði. Í dag var birt skoðanakönnun í Fréttablaðinu sem sýnir verulega fylgisaukningu Sjálfstæðisflokksins sem mælist nú með tæp 30%.

Það er sérkennilegt að lesa skýringar álitsgjafa sem spyrja hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi rétt úr kútnum vegna þess sem hefur gerst undanfarið á stjórnmálavettvangi. Sé skýringanna á auknu fylgi ekki að leita þar fara spekingarnir einfaldlega langt yfir skammt.

Skýringuna á efasemdum um að leita beri skýringa á sveiflum í stjórnmálum á stjórnmálavettvangi má rekja til þess að óskiljanlegt er með vísan til stjórnmálastarfs eða stefnu hve mikið fylgi Píratar fá. Þeir mælast enn einu sinni stærsti flokkurinn. Stuðning við þá má ef til vill ekki rekja til stjórnmála?

Enginn flokkur beinir spjótum sínum sérstaklega gegn Pírötum. Könnun Fréttablaðsins sýnir að Samfylking og Björt framtíð ættu sérstaklega að láta sig Pírata varða – flokkarnir eru að verða að engu á sama tíma og ofvöxtur einkennir Pírata.