22.11.2015 17:00

Sunnudagur 22. 11. 15

Í dag eru rétt 10 ár frá því að Angela Merkel, leiðtogi kristilegra demókrata (CDU), varð kanslari Þýskalands. Berthold Kohler, útgefandi Frankfurter Allgemeine Zeitung, segir af því tilefni að í síðustu þingkosningum hafi Merkel sigrað með þremur orðum; Þið þekkið mig. Það hafi dugað henni til að verða kanslari þriðja kjörtímabilið í röð.

Kohler segir að nú glími Merkel við andstreymi vegna flóttamannavandans. Hann lýkur grein sinni á þessum orðum:

„Eins og ávallt fer hún eigin leið: skref fyrir skref. Á sama hátt og hún, utanbæjarkonan frá DDR [Þýska alþýðulýðveldinu], sneri CDU til vinstri hefur hún í kreppu eftir kreppu orðið að voldugustu konu Evrópu. Enn þann dag í dag eins og fyrr kemur enginn í hennar stað hjá CDU ( og hjá CSU [kristilegum í Bæjaralandi] eins og [Horst] Seehofer [leiðtogi CSU] nákvæmlega veit). Ólíklegt er að [Sigmar] Gabriel [leiðtogi jafnaðarmanna SPD] sigri hana í kosningunum árið 2017. Engu að síður skelfur valdagrunnur hennar í innalands – og utanríkismálum – trúin á að hún viti hvað Þýskalandi og ESB sé fyrir bestu – vegna flóttamannavandans, einnig innan hennar eigin flokks. Það verður erfitt fyrir Merkel að endurvinna glatað traust: sambandslýðveldið á enn eftir að takast við mesta vandann vegna hins mikla fjölda aðkomufólks. Á hinn bóginn eru þess mörg dæmi að á erfiðleikatímum takist Merkel best að sýna hvers hún er megnug í stjórnmálum. Og þótt stjórnmálaferill hennar til þessa sýnist ekki eins stórbrotinn og forvera hennar einkennist hann þó af atvikum og sviptingum sem komu mönnum í opna skjöldu.“

Kohler telur með öðrum orðum of snemmt að afskrifa Angelu Merkel þótt á móti blási. Alvaran sem þjóðir Evrópu og stjórnendur þeirra standa frammi fyrir vegna flóttamannastraumsins endurspeglast í þessum orðum. „Feilspor“ Angelu Merkel var að viðurkenna að landamæri þjóðríkisins dygðu ekki sem vörn gegn fólkinu sem leitaði skjóls innan Þýskalands. Varðstaða á þeim forsendum bryti gegn lögmálum alþjóðavæðingarinnar.