20.11.2015 19:00

Föstudagur 20. 11. 15

Í dag var hádegisfundur í hátíðarsal Háskóla Íslands þar sem Billy Browder fjárfestir flutti ræðu. Browder var fyrir nokkrum árum stjórnandi stærsta erlendra fjárfestingasjóðs í Rússlandi, Hermitage Management Fund. Árið 2006 var honum bannað að koma til Rússlands. Hann flutti alla fjármuni sína frá landinu en lögfræðingur hans, Sergei Magnitískíj, komst að því að rússneskir lögreglumenn sem brutust inn í skrifstofur sjóðsins eftir að fjármunir í honum höfðu verið fluttir frá Rússlandi fölsuðu skjöl til að krefja rússneska ríkið um að endurgreiða skatta, hátt í 300 milljónir dollara, til sín og samverkamanna sinna.

Eftir að Sergei hafði kært þetta til rússneskra yfirvalda var hann handtekinn og látinn sitja inni í tæpt ár án dóms og laga þar til hann var drepinn í fangelsi 16. nóvember 2009. Frá þeim tíma hefur Browder helgað sig baráttunni fyrir að morðingjum Sergeis verði refsað. Í þeim tilgangi hefur hann meðal annars skrifað bókina Red Notice sem Almenna bókafélagið hefur nú gefið út undir heitinu: Eftirlýstur.

Þetta er ótrúleg en sönn saga sem minnir á frásagnir fyrri tíma um stöðu einstaklingsins andspænis alræðisstjórn í Rússlandi. Stjórn sem fer sínu fram án minnsta tillits til mannréttinda. Stjórnarhættir Vladimírs Pútíns taka á sig æ ógeðfelldari mynd og vald sitt reisir hann í vaxandi mæli á því að skapa ótta á meðal rússnesks almennings sem talin er trú um að öryggi þjóðarinnar sé í hættu fái forsetinn ekki öllu sínu framgengt heima og erlendis – valdbeitingin út á við er til þess fallin að ýta undir óttablandna þjóðerniskennd sem er alls staðar hættuleg blanda en ekki síst í kjarnorkuveldi undir harðstjóra sem stendur höllum fæti.

Ræðan sem Robert C. Barber, sendiherra Bandaríkjanna, flutti á fundi Varðbergs fimmtudaginn 19. nóvember er komin á netið og má sjá hana hér

Pútín beitti okkur Íslendinga ofríki síðsumars þegar hann bannaði Rússum að kaupa fisk af íslenskum fyrirtækjum. Þá töldu ýmsir að tjónið yrði allt að 38 milljörðum króna aðeins vegna uppsjávarfisks, makríls og síldar. Í Morgunblaðinu í dag segir að það kunni að nema 600 milljónum króna. Hvernig skyldi fyrri talan hafa verið reiknuð?