16.11.2015 19:15

Mánudagur 16. 11. 15

Á Birmingham-flugvelli var í morgun klukkan 11.00 var vel að því staðið að minnast fórnarlamba hryðjuverkmannanna í París með mínútu þögn. Gestir í flugstöðuinni voru með 15 mínútna fyrirvara minntir á að minningarmínútan yrði klukkan 11.00 og rétt fyrir þann tíma var enn flutt áminning og síðan gefið hljóðmerki þegar þagnarstundin hófst og í lok hennar. Allt féll í dúnalogn og margir stóðu úr sætum sínum til að árétta virðingu sína fyrir hinum látnu.

„Hryðjuverk munu ekki eyðileggja Frakkland, Frakkar munu eyðileggja hryðjuverkamennina,“ sagði François Hollande Frakklandsforseti á fundi sameinaðs þings, beggja deilda franska þingsins, í Versala-höll í dag.

Sameinað þing Frakka hefur vald til að breyta stjórnarskránni. Charles de Gaulle höfundur stjórnarskrár V. lýðveldisins frá 1958 vildi árétta skiptingu framkvæmdavalds og löggjafarvalds með því að forseti lýðveldisins gæti ekki tekið þátt í fundi hins sameinaða þings. Það var ekki fyrr en árið 2008 sem þessu var breytt að tillögu Nicolas Sarkozys, þáverandi Frakklandsforseta, sem ávarpaði sameinaða þingið 22. júní. Varð hann fyrsti þjóðhöfðinginn til að gera það frá 1851 þegar Louis-Napoléon Bonaparte stóð í þeim sporum.

Hollande stendur höllum fæti sem forseti og sömu sögu er að segja um Sósíalistaflokkinn. Nicolas Sarkozy fer fyrir stjórnarandstöðunni sem leiðtogi Lýðveldissinna en þar keppa þrír menn um að ferða forsetaefni flokksins árið 2017. Þjóðfylking Marine Le Pen leggur áherslu á skorður við fjölgun innflytjenda og andstöðu við meginstefnumál Evrópusambandsins. Kosið verður til héraðsstjórna í Frakklandi í desember. Í sama mánuði verður loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna haldin í París með þátttöku 25.000 manna og alls um 50.000 gesta.

Menn geta rætt fræðilega um stöðu mála í Frakklandi. Hið sögulegasta sem gerst hefur af hálfu franskra stjórnmálamanna er stríðsyfirlýsing Hollandes forseta. Það eru þáttaskil. Lög Frakklands heimila nú forseta og ríkisstjórn að setja neyðarástand í 12 daga, Hollande vill að lögunum verði breytt og heimildin nái til þriggja mánaða neyðarástands.