9.11.2015 19:00

Mánudagur 09. 11. 15

Fyrir 14 árum bjó Jim O‘Neill, aðalhagfræðingur Goldman Sachs, til skammstöfunina BRIC, hún hefur síðan verið notuð þegar fjallað er um nýmarkaðslöndin Brasilíu, Indland, Rússland og Kína. Goldman Sachs mælti með að fjárfest væri í þessum löndum og fóru margir að því ráði með miklum hagnaði.

Nú hefur Goldman Sachs hins vegar afmáð BRIC-fjárfestingarsjóðinn og fellt hann inn í aðra sjóði sína. Þar með hefur hugmyndin um þessa sérstöku fjárfestingarleið verið jörðuð segir í Frankfurter Allgemeine Zeitung í dag. Þess er ekki vænst að í nánustu framtíð þyki spennandi kostur að festa fé í þessum löndum. Veltufé BRIC-sjóðsins hjá Goldman Sachs hefur minnkað um 88% frá 2010 og hlutabréf hafa lækkað um 30%.

Fjárfestar segjast hafa áttað sig á að óvissa sé of mikil í nýmarkaðslöndununm, þau muni varla ná sér á strik á næstunni og því sé öruggast að festa fé á gamalgrónum mörkuðum í iðríkjunum.

Segja má að það fari minna fyrir fréttum af efnahagslegri hnignun nýmarkaðsríkjanna en spunanum um ágæti þeirra og uppgang fyrir fáeinum árum.

Vefsíðan Kjarninn hefur breytt um svip og líkist hún nú Eyjunni þar sem safnað er efni af öðrum vefmiðlum og lesendum bent á að nálgast það á krækjum. Að þessi leið skuli valin til að halda Kjarnanum á lífi bendir til að ekki hafi fundist grundvöllur til að halda úti sjálfstæðum miðli sem stæði undir nafni með sjálfstæðri efnisöflun.