25.11.2015

Hryðjuverkin í París – öryggi Íslands

Fundur Sambands eldri sjálfstæðismanna 25. nóvember 2015


Hryðjuverkin í París að kvöldi föstudagsins 13. nóvember hafa varpað skugga langt út fyrir borg ljóssins eins og hin fagra höfuðborg Frakklands er oft nefnd. Við vitum ekki enn um allar afleiðingar þessa verknaðar. Sumir, þar á meðal Frans páfi, telja að við séum í raun vitni að þriðju heimsstyrjöldinni.

Í máli mínu leitast ég við að bregða ljósi á eðli ódæðisins og lýsa viðbrögðum franskra stjórnvalda. Frakklandsforseti segir þjóð sína í stríði sem hún muni sigra. Pólitísku áhrifin tengjast vanda vegna flóttamanna, ekki síst í Þýskalandi. Schengen-samstarfið er í uppnámi.

Allt snertir þetta okkur Íslendinga og öryggi okkar eins og lýst verður í lok ræðunnar.

*

Nú eru 12 dagar liðnir frá því að flokkur manna gerði samtímis árás á nokkra staði í París og beitti vélbyssum og sprengjum gegn almenningi sem átti sér einskis ills von á föstudagskvöldi. Vegna árásarinnar hafa 130 týnt lífi og 350 eru sárir, sumir alvarlega.

Þetta örlagaríka kvöld stöðvaði lögregla mann með sprengjubelti. Hann var á leið inn á þann stað í París þar sem flestir voru saman komnir þetta kvöld, íþróttaleikvang borgarinnar. Þar léku Frakkar og Þjóðverjar vináttuleik í knattspyrnu og var François Hollande Frakklandsforseti meðal áhorfenda.

Hollande brást við hryðjuverkunum af mikilli hörku. Hann sagði Frakkland hafa orðið fyrir stríðsárás. Gegn árásinni yrði snúist án miskunnar á viðeigandi hátt.

Franski herinn var kallaður út til að gæta öryggis í París og annars staðar í Frakklandi. Harðar loftárásir voru gerðar á hryðjuverkasamtökin sem sögðust bera ábyrgð á árásinni, Ríki íslams í Sýrlandi. Flugvélamóðurskipið Charles de Gaulle var sent á vettvang til að þrefalda eyðingarmátt franska hersins og hófust sprengjuárásir þaðan í fyrradag.

*

Hryðjuverkaárásin í París var sögð skipulögð í Sýrlandi, undirbúin í Belgíu og framkvæmd í Frakklandi.

Á henni og árásunum í New York og Washington 11. september 2001 er sá munur að þá var annars vegar ráðist á World Trade Center, áberandi tákn alþjóðaviðskipta og kapítalisma, og hins vegar á Pentagon, bandaríska varnarmálaráðuneytið, en í París voru almennir borgarar skotmarkið.

Tilgangur árásarinnar var að skapa glundroða og sem mestan ótta meðal almennings. „Ráðast þeir á okkur fyrir það sem við gerum eða ráðast þeir á okkur fyrir það sem við erum?“ spurði þjóðfrægur franskur stjórnmálafræðingur bandarískan blaðamann og velti fyrir sér hvort Frakkar væru skotmark vegna hernaðaraðgerða sinna gegn öfgafullum íslamistum eða vegna þess að þeir væru frjáls og lýðræðisleg þjóð. Blaðamaðurinn taldi að ráðist hefði verið á Frakka vegna þess hverjir þeir eru og sagði það sannarlega ógnvekjandi.

Í janúar 2015 réðust hryðjuverkamenn í París á ritstjórnarskrifstofur skopblaðsins Charlie Hebdo sem hafði hæðst að Múhameð spámanni, jafnframt voru teknir gíslar í verslun sem sérhæfði sig í sölu á varningi fyrir gyðinga.

Eftir hryðjuverkin í janúar efndi Frakklandsforseti til samstöðugöngu með þátttakendum frá mörgum þjóðum til að árétta einingu Frakka og annarra þjóða – varðstöðu gegn gyðingahatri og skoðanakúgun.

Nú fór Frakklandsforseti í Sorbonne-háskóla og minntist fórnarlamba hryðjuverkanna með því að syngja franska þjóðsönginn með námsmönnum. Þaðan hélt hann á sameinað þing Frakklands í Versala-höll og áréttaði að Frakkland ætti í stríði. Óskaði forsetinn eftir heimild til að lengja neyðarástand í landinu úr 12 dögum í þrjá mánuði auk þess að boða aðrar breytingar til marks um hertar öryggisráðstafanir.

Franski þjóðsöngurinn fyllti þingsalinn að lokinni ræðu forsetans og  föstudaginn 20. nóvember samþykktu þingmenn nær einum rómi lög sem veittu heimild til að framlengja neyðarástandið í þrjá mánuði. Lögregla og leyniþjónusta auk hersins hafa nú frjálsari hendur en ella til að beita valdi.

Fyrstu vikuna eftir árásina hafði lögregla leitað í um 800 húsum, 90  höfðu verið settir í gæsluvarðhald, 164 skipað að halda sig á heimilum sínum og 174 vopn höfðu verið gerð upptæk. Þá hefur útgöngubann verið ákveðið á afmörkuðum svæðum.

Yfirgnæfandi meirihluti Frakka styður aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Niðurstöður könnunar sem birtar voru sunnudaginn 22. nóvember sýna að 91% styðja þriggja mánaða neyðarástand og 94% hert eftirlit á landamærum Frakklands. Könnunin var gerð 18. til 20 nóvember.

*

Franska stjórnin lét ekki sitja við ráðstafanir heima fyrir. Hún virkjaði grein sáttmála Evrópusambandsins um að sé ráðist á eitt ríkjanna eigi önnur ESB-ríki að koma því til aðstoðar. Öll hin 27 ESB-ríkin féllust á tilmæli um að gera það.

Frakkar virkjuðu hins vegar ekki 5. grein NATO-sáttmálans um að árás á eitt þeirra sé árás á þau öll eins og Bandaríkjastjórn gerði eftir árásina 11. september árið 2001.

Þá lögðu Frakkar tillögu fyrir öryggisráð Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt var þar einum rómi föstudaginn 20. nóvember  um að ríki heims hefðu heimild til að „beita öllum nauðsynlegum úrræðum“ til að vinna sigur á Ríki íslams.

Formlega veitir ályktunin ekki heimild til þess að beita hervaldi þar sem hún er ekki felld undir VII. kafla sáttmála SÞ um beitingu slíks valds. Franskir diplómatar segja hins vegar að túlka megi orðalagið „öll nauðsynleg úrræði“ á víðtækan hátt. Í ályktuninni er Ríki íslams skilgreint sem „einstæð ógn við heimsfrið og alþjóðaöryggi“.

David Cameron, forsætisráðherra Breta, vill fá heimild breska þingsins til að senda breskar orrustuvélar til sprengjuárása í Sýrlandi. Eftir að öryggisráðið hafði samþykkt ályktun sína sagði Cameron að texti hennar sýndi alþjóðlegan vilja til sóknar í Sýrlandi og markvissra aðgerða til að uppræta Ríki íslams.

Breski forsætisráðherrann var í París mánudaginn 23. nóvember og hét Frökkum að styðja þá til að sigrast á hryðjuverkamönnunum. Hollande efndi í gær til fundar með Barack Obama Bandaríkjaforseta í Washington. Í dag er Angela Merkel Þýskalandskanslari í París og á morgun fer Hollande til Moskvu og hittir Vladimír Pútín, um helgina kemur forseti Kína til Parísar og þannig mætti áfram telja.

Tilgangur Frakklandsforseta er skýr: að mynda alþjóðlegt bandalag til hernaðar gegn Ríki íslams. Sérfræðingar eru á einu máli um að  fullnaðarsigur á vígvellinum vinnist ekki nema fjölþjóðlegur landher sé sendur á vettvang. Hér skal engu spáð um það efni. Barack Obama sló hins vegar föstu á blaðamanna fundi með Hollande í gær að Ríki íslams yrði eyðilagt. „Við munum vinna, Ríki íslams mun tapa,“ sagði Obama.

.

*

Sama dag og öryggisráðið samþykkti ályktunina í New York hittust innanríkisráðherrar Schengen-ríkjanna á aukafundi í Brussel að ósk Frakka.

Ráðherrarnir samþykktu að herða eftirlit á ytri landamærum Schengen-svæðisins  Eftirlitið skal ekki aðeins ná til þeirra sem búa utan svæðisins heldur einnig allra sem hafa rétt til frjálsrar farar af því að þeir eru EES-borgarar eins og við Íslendingar.  

Þá hafa einstök Schengen-ríki tilkynnt að þau ætli að taka upp eftirlit á landamærum sínum. Svíar eru í þeim hópi en sænska kerfið er komið að þolmörkum vegna hins mikla straums aðkomufólks til landsins.

Í reynd er viðurkennt að Schengen-samstarfið í núverandi mynd hefur runnið sitt skeið. Breytingar á því munu hafa í för með sér aukið eftirlit.

Á ráðherrafundi Schengen-ríkjanna var hvatt til þess að ESB-þingið hraðaði afgreiðslu á reglum um miðlun upplýsinga flugfélaga um flugfarþega til lögreglu og leyniþjónustu. Nafn, greiðslukortanúmer, ferðaáætlun og persónuupplýsingar eru skráð í þennan grunn. Í fyrsta lagi verði tryggt að þessum upplýsingum sé miðlað um alla farþega sem koma til Evrópu og fara þaðan. Í öðru lagi nái þessi  miðlun upplýsinga einnig til þeirra sem ferðast með flugi innan Schengen-svæðisins. Þá verði heimildin til að geyma og skoða þessar upplýsingar lengd úr einum mánuði í eitt ár.

Þegar innanríkisráðherra Frakka fjallaði um þennan lið á dagskrá ráðherrafundarins sagði hann: „Enginn evrópskur borgari skilur hvers vegna tafið er fyrir að þetta nái fram að ganga.“

ESB-þingið hefur hins vegar árum saman legið á málinu með vísan til persónuverndar.

*

Margir óttast að vegna hryðjuverkanna vaxi andstæðingum útlendinga fiskur um hrygg. Í Frakklandi hefur stuðningur við Hollande forseta aukist en Þjóðfylkingin sem mesta andúð hefur á innflytjendum mælist með mest fylgi um 28% en hún hefur ekki styrkst nema um eitt stig eftir 13. nóvember,

Evrópskar umræður um útlendingamál hafa tekið á sig nýja mynd. Sjónarmið sem kennd voru við öfgar fyrir nokkrum misserum eða árum njóta nú viðurkenningar á pólitískum vettvangi. Stuðningur við þessi sjónarmið hefur aukist og afstaða til flokka gjörbreyst.

Skýrustu dæmin um það eru hér á Norðurlöndunum þar sem Framfaraflokkurinn á ráðherra í ríkisstjórn Noregs, Finnaflokkurinn á ráðherra í ríkisstjórn Finnlands, forseti danska þingsins kemur úr Þjóðarflokknum og jafnaðarmaður, forsætisráðherra Svíþjóðar, ákveður að taka upp landamæraeftirlit til að stemma stigu við komu flóttamanna og slá á útlendingahatur.

Angela Merkel fagnaði sunnudaginn 22. nóvember að hafa setið í tíu ár sem kanslari Þýskalands. Hún ákvað í sumar að opna Þýskaland fyrir flóttafólki frá Sýrlandi. Þessi afdrifaríka ákvörðun hefur valdið henni meiri pólitískum vandræðum en allt annað á kanslaraferli hennar. Innan eigin flokks sætir Merkel vaxandi gagnrýni og innan bræðraflokks hennar í Bæjaralandi hafa menn risið opinberlega gegn henni.

Þrátt fyrir mótbyrinn neitar Merkel að setja þak á fjölda flóttamanna sem Þjóðverjar taka á móti. Hún áréttaði þetta í ræðu á þingi kristilegra í Bæjaralandi föstudaginn 20. nóvember. Flokksþingið hafði þó skömmu áður samþykkt nær einróma að slíkt þak skyldi sett. Merkel sagði að lokun landamæra væri engin flóttamannalausn á 21. öldinni. Aðeins væru tvær leiðir til að minnka flóttamannastrauminn til Evrópu: að semja við Tyrki um að þeir haldi fólki hjá sér og bæta lífsgæði í flóttamannabúðunum, einkum í Líbanon.

Í frönsku dagblaði er bent á að Merkel hafi ekki einu orði tengt flóttamenn við hryðjuverkin í París. Það sé hreinlega bannað að ræða málið á þeim forsendum í Þýskalandi.  

Tvískinnungur einkennir þó þýsku umræðurnar eins og birtist í ályktun kristilegra í Bæjaralandi þar sem segir annars vegar að ekki skuli blanda saman flóttmannavandanum og baráttunni gegn hryðjuverkum og hins vegar að nauðsynlegt sé að virkja að nýju réttarreglur um brottvísanir sem ekki hafi verið virtar í margar vikur og jafnframt herða eftirlit á landamærum Þýskalands.

Innan þýsku ríkisstjórnarinnar hafa verið deilur um hvort hafa eigi stjórn á komu farand- og flóttafólks til landsins með því að opna svonefnd biðsvæði á landamærunum eða skráningarstöðvar innan lands. Jafnaðarmenn lögðust gegn biðsvæðunum, þau yrðu eins og fangabúðir á landamærunum. Merkel féllst á skráningarstöðvarnar.

Hvað skal gert í þessum stöðvum? Svarið er einfalt: aðkomufólkið skal flokkað og greint á milli þeirra sem koma frá svonefndum „öruggum“ löndum og hinna sem eru raunverulegir flóttamenn og þurfa alþjóðlega vernd til að halda lífi. Fólkinu frá öruggu löndunum á að vísa strax úr landi, hælisumsóknir hinna skulu skoðaðar og afgreiddar á skömmum tíma.

*

Hvarvetna óttast menn að almenningi kunni að verða ógnað af einförum sem af einni ástæðu eða annarri ákveði að grípa til vopna og myrða næsta mann eins og Anders Behring Breivik gerði í Noregi 22. júlí árið 2011. Gegn slíkum voðaverkum er erfitt að beita forvirkum aðgerðum eins og dæmin sanna.

Öðru máli gegnir um hryðjuverk sem skipulögð eru í einu landi, undirbúin í öðru og framkvæmd í hinu þriðja. Rannsóknir á hryðjuverkunum í París leiða í ljós að þeir sem stóðu að framkvæmd þeirra voru smáglæpamenn í Belgíu og Frakklandi sem urðu helteknir af öfgaboðskap Ríkis íslams, hættu að nota fíkniefni og sneru sér að sprengjum og vélbyssum.

Brussel hefur verið lokuð borg í fjóra eða fimm sólarhringa á meðan her og lögregla reynir að uppræta ófögnuðinn sem teygir sig raunar út fyrir borgina.

*

Huga ég þá að stöðunni hér á landi.

Við leyfum okkur að lifa í þeirri trú að enginn samborgari okkar snúist gegn samfélaginu og fremji fjöldamaorð eftir öfgafulla innrætingu íslamista sem sækja styrk sinn til Ríkis íslams. Við teljum hættuna hljóta að koma frá útlöndum.

Nokkrar leiðir eru inn í landið og allra þeirra er unnt að gæta með meira eftirliti en nú er haldið úti án þess að brjóta gegn Schengen-samkomulaginu eða vega að persónufrelsi þeirra sem til landsins koma.

Um 98% allra sem koma til landsins fara um flugstöð Leifs Eiríkssonar. Virkasta vörn íslenskra yfirvalda gegn skipulagðri hryðjuverkaárás og skipulagðri glæpastarfsemi almennt er að halda uppi öflugu eftirliti í flugstöðinni og á Keflavíkurflugvelli. Vegna fjárskorts eru tækifærin til eftirlits ekki nýtt sem skyldi.

Í útlendingamálum ber að haga skipulagi að þýskri fyrirmynd: Flugstöðin sé skilgreind sem skrásetningarstöð. Þar sé strax tekið á málum þeirra sem sækja um hæli og ákvarðað hvort þeir koma frá öruggu landi eða ekki. Þeim sem ekki eiga lögbundinn rétt til að sækja um hæli sé strax snúið til baka.

Hert Schengen-samstarf og skyldur á öll flugfélög til að afhenda yfirvöldum persónuupplýsingar um farþega munu auðvelda þetta greiningarstarf. Þetta eru öflugar forvirkar aðgerðir lögreglu sem rúmast innan núgildandi laga. Þær eru auk þess liður í að tryggja að Keflavíkurflugvöllur njóti trausts sem útvörður á Schengen-svæðinu gagnvart Bretlandi, Bandaríkjunum og Kanada. Hin mikla umferð um flugvöllinn ræðst af því að leiðin yfir Atlantshaf sé örugg og greiðfær.

Um störf lögreglu gildir hið sama og allra annarra að því betur sem viðfangsefnið er greint og afmarkað þeim mun meiri líkur eru á að góður árangur náist. Samhliða því sem fjölgað verður í lögreglunni og betur að henni búið með tækjum ber að leggja megináherslu á greiningu og viðbrögð á fyrstu stigum við landamærin vakni grunsemdir um hættu.

Dæmin sýna að skýr og markviss afstaða stjórnvalda gegn hættum frá utanaðkomandi öflum skilar sér fljótt til þeirra hópa sem ástæða er til að óttast. Þannig hefur til dæmis tekist að halda gengjum sem kennd eru við vélhjól, Hell‘s Angels eða Bandidos, í skefjum hér með lokun landamæra. Þá var hart tekið á Falun gong fólki snemma sumars 2002. Allar þessar ráðstafanir rúmuðust innan Schengen-reglna.

Það er alls ekki nauðsynlegt að benda á skilgreinda hópa vilji stjórnvöld að tekin sé upp skoðun persónuskilríkja við komu til landsins. Það má gera með rökstuðningi á grundvelli mats réttra yfirvalda.

Á  landsfundi okkar sjálfstæðismanna nú í október var þessi setning samþykkt: „Þörf er á endurskoðun Schengen-samstarfsins vegna þróunar í Evrópu með hagsmuni Íslands að leiðarljósi.“

Þetta er stefna sem fellur vel að því sem nú ber hæst þegar rætt er um samstarf Schengen-ríkjanna. Íslensk stjórnvöld hljóta að fylgjast náið með framvindu þessara mála og jafnframt meta kosti og galla fyrir Íslendinga. Ástæðulaust er að taka skyndiákvarðanir í þessu máli.

Morgunblaðiðbirti í gær forsíðufrétt þar sem vitnað var til greinar sem Ronald K. Noble, fyrrverandi forstjóri alþjóðalögreglunnar Interpol, ritaði í The New York Times fimmtudaginn 19. nóvember. Þar hvetur hann til þess að eftirlit verði tekið upp að nýju á landamærum innan Evrópu ekki síst til að finna þá sem villa á sér heimildir með fölskum ferðaskilríkjum.

Þverpólitísk nefnd sem skilaði tillögum um ný útlendingalög í ágúst sl. lagði meðal annars til að sett yrðu takmörk við hvenær refsa mætti hælisleitendum vegna ólöglegrar komu til landsins eða notkunar falsaðra skilríkja. Það skýtur skökku við að hér skuli annars vegar rætt um nauðsyn eftirlits með skoðun vegabréfa eða annarra skilríkja og hins vegar skuli fulltrúar allra flokka vilja falla frá refsingu fyrir að leggja fram fölsuð skilríki. Full ástæða er til að hvetja til varkárni við breytingar í þá átt.

Eitt af því sem innanríkisráðherrar Schengen-ríkjanna ræddu á fundi sínum föstudaginn 20. nóvember var hvernig stemma ætti stigu við ólöglegum vopnaflutningi milli landa.

Tollgæsla er heimil á Schengen-landamærum. Í Morgunblaðinu birtist eftirfarandi frétt laugardaginn 14. nóvember síðastliðinn:

„Tollverðir hafa stöðvað innflutning á 126 munum, sem flokkast undir ólögleg vopn, það sem af er árinu. Að auki hafa þeir lagt hald á 133 leysibenda af ólöglegum styrk. Lagt hefur verið hald á umrædda muni í samtals 74 málum að því er kemur fram í tilkynningu frá embætti Tollstjóra. Á meðal þess sem tollverðir lögðu hald á voru tveir rifflar, ein skammbyssa og 20 loftbyssur. Einnig 28 ólöglegir hnífar, þar af 16 fjaðurhnífar. Loks má nefna 21 stykki af handjárnum, piparúða og hnúajárn. Á síðasta ári hafði stærsta sending ólöglegs vopnabúnaðar sem tollverðir lögðu hald á að geyma nær 200 grömm af sprengipúðri, á annan tug kast- og fjaðurhnífa, kylfur, handjárn og sveðju.“

Fréttin sýnir okkur að tollverðir eru á verði vegna hættulegra hluta. Á meðan þeir finna ekki meiri ógnarvopn en hér er lýst er auðveldara en ella að átta sig á að ríkislögreglustjóri telji ekki nauðsynlegt að hækka hættustig í landinu. Fréttin minnir okkur hins vegar einnig á ótvírætt gildi forvirkra aðgerða og náinnar samvinnu allra sem koma að öryggisvörslu í landinu.

Þar skiptir miklu að hin pólitíska ábyrgð sé skýr. Hún er enn of óljós milli utanríkisráðuneytis og innanríkisráðuneytis. Þá var mikið óheillaverk unnið með því að afmá dómsmálaráðuneytið og mynda innanríkisráðuneytið. Brýnt er að stofna dóms- og öryggismálaráðuneyti og ætti að láta siglingamál og flugmál falla undir það til að tryggja sem besta samhæfingu á sviði öryggismála. Við höfum hvorki efni á að dreifa kröftunum við gæslu öryggis né blanda yfirstjórn þeirra við aðra þunga og viðamikla málaflokka.

Góðir áheyrendur!

Um síðustu helgi birtist niðurstaða skoðanakönnunar í Danmörku sem sýndi að 80% Dana telja líklegt að á næsta ári verði gerð hryðjuverkaárás í Danmörku en 87% Dana segjast ekki láta það aftra sér frá að fara á kaffihús eða með lest eins og þeir hafi gert. Sérfræðingar segja að þetta sýni að Danir hafi „sigrast“ á hryðjuverkamönnunum sem vilji breyta lífsháttum þeirra. Meirihluti Dana ber traust til leyniþjónustu sinnar og að hún gæti öryggis þeirra.

Í því felst hættuleg afneitun að láta eins og ekki sé nauðsynlegt að tryggja öryggi borgara á Íslandi með eftirliti og gæslu. Þegar öryggismál þjóðarinnar eru rædd á hinu háa alþingi gætir oft mikillar vantrúar á að veita beri lögreglu tæki og heimildir til að takast á við verkefni líðandi stundar. Þar skiptir miklu að hafa lifandi eftirlit með hvers kyns vísbendingum og þar má alls ekki gleyma netheimum.

Við njótum ekki hins frjálsa samfélags nema við sköpum því nauðsynlegar varnir eftir aðstæðum hverju sinni.

Öflun upplýsinga, greining staðreynda og nægur viðbúnaður eru lykilþættir þegar tekist er á við þennan brýna og aðsteðjandi vanda samtímans. Íslenska ríkið má ekki bregðast borgurum sínum, frumskyldan er að tryggja öryggi þeirra.