15.11.2015 19:30

Sunnudagur 15. 11. 15

Kosturinn við nútíma fjölmiðlun er að unnt að nálgast upplýsingar og umræður í ólíkum löndum milliliðalaust ráði maður yfir nauðsynlegri tungumálakunnáttu til þess. Á netinu auðveldar Google manni slíka upplýsingaöflun með boði um að þýða texta á vefsíðum á tungumál sem maður skilur ekki.

Þar sem ég er staddur núna í Birmingham hef ég aðgang að fleiri sjónvarpsstöðvum en sem áskrifandi Símans í Reykjavík. Þar má nefna bresku heima sjónvarpsstöðvarnar, BBC, ITV og Channel 4 þar sem alls staðar eru frábærir fréttatímar og skýringar. Þá má einnig sjá France 24 á ensku auk frönsku. Þannig má áfram telja.

Í þýsku sjónvarpsstöðinni ZDF var í kvöld sérstakur fréttatími þar sem rýnt var í ágreining innan þýsku ríkisstjórnarinnar vegna farand- og flóttafólksins. Ágreiningurinn hefur magnast vegna hryðjuverkaárásarinnar í París. Angela Merkel kanslari á undir högg að sækja innan eigin flokks og jafnframt er hætta á að gjáin breikki milli kristilegra og jafnaðarmanna. Er þetta erfiðasta málið sem Merkel hefur glímt við frá því að hún varð kanslari árið 2005.

Merkel opnaði þýsk landamæri fyrir flóttamönnum frá Sýrlandi. Nú er rætt um að einn hryðjuverkamannanna hafi komist til Evrópu sem flóttamaður. Þessar vangaveltur hafa orðið vatn á myllu andstæðinga stefnu Merkel.

Minnt er á að Merkel geti kúvent fyrirvaralaust eins og hún gerði eftir kjarnorkuslysið í Fukushima í Japan hinn 11. mars 2011 þegar kanslarinn ákvað að öllum kjarnorkuverum í Þýskalandi skyldi lokað. Hvort hún geri það núna vegna flóttamannanna kemur í ljós.

Hvað sem öðru líður er augljóst að árásin í París sem Frakkar segja að sé stríðsaðgerð og svara beri sem slíkri hefur víðtæk áhrif. Árás á eitt NATO-ríki er árás á þau öll segir í 5. grein NATO-sáttmálans. Verður þessi grein virkjuð vegna stríðsins sem Frakkar heyja núna?

Í Birmingham var hinna látnu í París og í nýlegum hryðjuverkum í Beirút og Bagdad minnst í messu sem ég sótti í St. Martinskirkjunni.