8.11.2015 16:00

Sunnudagur 08. 11. 15

Stefán Ólafsson prófessor hefur þokast frá Samfylkingunni til Framsóknarflokksins í skrifum sínum á netinu undanfarin misseri. Hann er í hópi ráðgjafa og samstarfsmanna Eyglóar Harðardóttur velferðarráðherra. Telur prófessorinn Framsóknarflokkinn hafa breyst í kröftugan talsmann „velferðarstefnu og bættrar afkomu heimilanna“. Hann starfi hins vegar með Sjálfstæðisflokknum vegna þess að Samfylkingin „fjandskapaðist sérstaklega í garð Framsóknar og boðaði fyrst og fremst aðild að ESB, sem allsherjarlausn á öllum vanda Íslendinga“. Telur Stefán það hafa verið „stór mistök“ enda hafi Samfylkingin goldið afhroð í kosningunum vorið 2013.

Fyrir þær kosningar var Stefán eindreginn talsmaður ESB-aðildar. Nú leggur hann sig fram um að sá fræjum tortryggni milli framsóknarmanna og sjálfstæðismanna meðal annars með því að hefja Sigmund Davíð Gunnlaugsson til skýjanna á kostnað sjálfstæðismanna.

Allt eru þetta barnalegar og gagnsæjar pólitískar æfingar til að koma sér í mjúkinn hjá þeim sem hafa útdeilingu bitlinga á valdi sínu. Heift Stefáns í stjórnmálum birtist þegar hann fjallar um Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor. Þá glittir í kröfu um ritskoðun eða jafnvel bannfæringu.

Hannes Hólmsteinn flutti nýlega fjölsóttan fyrirlestur þar sem hann greindi og gagnrýndi siðferðilega vörn Ayn Rand fyrir kapítalismanum. Stefán getur ekki unnt Hannesi sannmælis vegna þess framtaks (glærur Hannesar má sjá á netinu hér) heldur ræðst á  þau Ayn Rand í löngum pistli, þar sem Stefán telur Hannes Hólmstein stunda trúboð og segir:

„Sú staðreynd að það er að hluta sama fólki sem stendur að þessu nýja trúboði [um Ayn Rand] og stóð að byltingu nýfrjálshyggjunnar í Sjálfstæðisflokknum á sínum tíma, vekur spurningar um hvort hin sérkennilega róttækni Ayns Rand verði jafn áhrifarík í flokknum í framhaldinu og nýfrjálshyggjan varð á valdatíma Davíðs Oddssonar.“

Bækur Ayn Rand (þrjár hafa komið út á íslensku) hafa selst í nærri 30 milljónum eintaka, gerð hefur verið kvikmynd um hana og starfandi eru hugmyndafræðihópar undir nafni hennar. Enginn vafi er á að hún hefur haft bein og óbein áhrif á milljónir manna þótt stjórnmálaflokkar geri ekki kenningar hennar að stefnu sinni. Óþolið gegn frjálsri hugsun í orðum Stefáns Ólafssonar skaðar ekki þá sem hann gagnrýnir. Það er hins vegar þeim síst til framdráttar sem hann styður eins og sannaðist í „hamförum“ Samfylkingarinnar vorið 2013.