28.11.2015 19:15

Laugardagur 28. 11. 15

Í dag efndum við til bókakynningar í Hlöðunni að Kvoslæk í samvinnu við bókaútgáfuna Sæmund á Selfossi. Var hún vel sótt og heppnuð.

Tölvuárás var gerð á vef stjórnarráðsins og sendi forsætisráðuneytið frá sér tilkynningu um málið í dag. Þar segir:

„Vefsíðum Stjórnarráðs Íslands var lokað í gærkvöldi í kjölfar álagsárásar sem virðist hafa verið skipulögð erlendis frá. […]

Umrædd árás beindist að netþjónum vefja ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands en engin gögn voru í hættu. Vefirnir innihalda gögn og upplýsingar sem eru þegar aðgengileg almenningi. Vefirnir voru hafðir lokaðir þar til ljóst var að ástandið var komi aftur í eðlilegt horf á tíunda tímanum í morgun. Upplýsingasíður Stjórnarráðsins eru nú komnar aftur í eðlilegt horf og aðgengilegar notendum.“ 

Á ruv.is segir í dag að vefsíðurnar hafi legið niðri í 13 klukkustundir vegna árása á vegum Anonymous. Í yfirlýsingu sem birtist á Youtube í nafni Anonymous 25. nóvember hafi hvalveiðar Íslendinga verið fordæmdar.

Ragnheiður M. Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Hugsmiðjunnar, sem annast kerfisstjórn fyrir stjórnarráðið sagði að netöryggissveit Póst-og fjarskiptastofnunar hefði verið virkjuð.

Innanríkisráðuneytið hefur kynnt tillögur að lagabreytingum um að efla netöryggissveitina með því meðal annars að færa hana undir ríkislögreglustjóra og þar verði sólarhringsvakt sem nái ekki aðeins til fjarskiptafyrirtækja og stjórnkerfisins heldur að auki til fjármála-, orku- og flugumferðarfyrirtækja. Til þess að mæta kostnaði vegna meiri varna og  tækja verður innheimt sérstakt netöryggisgjald af þeim sem mestan hag hafa að bættum vörnum.

Innan Europol, NATO og annarra alþjóðastofnana er lögð sífellt meiri áhersla á varnir gegn tölvuárásum og hafa ríki vaxandi samstarf á því sviði. Framkvæmd varnanna er þó í höndum einstakra ríkja. Þessi síða mín er vistuð hjá Hugmsiðjunni og þaðan fékk þessa tilkynningu föstudaginn 13. nóvember:

„Töluvert hefur verið um nettruflanir í þessari viku. Upplýsingum hefur verið deilt á internetinu þess efnis að um sé að ræða skipulagðar árásir „Anonymous" hópsins vegna stuðnings Íslands við hvalveiðar. Tæknimenn eru að vinna í því að verjast þessu ástandi og vinna að lausn. Flókið getur verið að verjast svona árásum og erfitt er að vita hversu lengi ástandið varir. Búast má við þjónustutruflunum eða þjónusturofi hjá notendum erlendis. Tilkynningar munu berast um stöðuna eftir atvikum. Við þökkum fyrir sýnda biðlund.“

 Af þessu sést að tölvuárásirnar á Ísland hafa staðið í nokkrar vikur.