17.11.2015 20:30

Þriðjudagur 17. 11. 15

Eftir árásina á Charlie Hebdo í janúar boðaði François Hollande Frakklandsforseti til samstöðugöngu um breiðstræti Parísar til að árétta einingu þjóðarinnar og alþjóðlegan stuðning við hana. Mikill mannfjöldi tók þátt í göngunni þar á meðal fjöldi þjóðarleiðtoga. Eftir árásirnar í París 13. nóvember nálgast Hollande þjóð sína og umheiminn á annan hátt.

Forsetinn og Manuel Valls forsætisráðherra fóru til Sorbonne-háskóla og stóðu þar á hádegi mánudaginn 16. nóvember þegar hinna látnu var minnst með mínútu þögn. Að henni lokinni hóf einhver að syngja þjóðsönginn Marseillaise og sífellt fleiri tóku undir með honum þar til hann hljómaði kröftuglega í háskólagarðinum.

Við svo búið ók forsetinn til Versala-hallar þar sem hann ávarpaði sameinað þing Frakka. Að ræðunni lokinni hóf einhver þingmanna að syngja Marseillaise og síðan hver af öðrum af miklum krafti. Í ræðunni lýsti forsetinn yfir stríði og að Frakkar mundu sigra í stríðinu við þá sem nú hefðu ögrað þeim og sært þá á þennan svívirðilega hátt.

Í frönskum blöðum segir að árásin hafi verið skipulögð í Sýrlandi, undirbúin í Belgíu og framkvæmd í Frakklandi. Að þessu sinni var ekki ráðist á skilgreindan hóp heldur gripið til öflugra skotvopna á fjölmennum stöðum til að fella sem flesta á sem skemmstum tíma. Ekki tókst að smygla sprengjumanni í sjálfsmorðstilgangi inn á íþróttaleikvang þar sem tugþúsundir manna, þeirra á meðal Frakklandsforseti, horfðu á knattspyrnuleik.

Næsta undarlegt er að hlusta á vangaveltur um að árásina 13. nóvember megi rekja til félagslegra aðstæðna manna. Mætti ætla að þeir sem þannig tala vilji að Frakkar eða Belgar ákveði að opna fleiri félagsmiðstöðvar eftir blóðbaðið í stað þess að senda lögreglu til að leita að vopnum eða sýna óvininum í tvo heimana.

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams eira engum sem aðhyllast ekki öfgafulla trú þeirra. Allir eru réttdræpir. Að kenna þetta illa hugarfar við félagslegt vandamál er barnaskapur. Vissulega falla ekki allir fyrir öfgafulla boðskapnum en að ætla mönnum að sætta sig við hann í nafni fjölmenningar er fráleitt.

Frakklandsforseti greip til eina úrræðisins sem hæfði árásinni – að lýsa óvininum stríð á hendur. Hann virkjaði jafnframt í fyrsta sinn ákvæði Lissabon-sáttmála ESB um að ríkin leggi hvert öðru lið sé á eitt þeirra ráðist.