30.11.2015 19:00

Mánudagur 30. 11. 15

Loftslagsráðstefnan hófst á Bourget-flugvellinum skammt fyrir utan París með 3ja mínútna ræðum fyrirmenna í dag. Talið er að 40.000 manns sæki hana og nýti sér 180.000 fm svæði sem lagt er undir fundina. Um 3.000 starfsmenn sjá til þess að allt gangi snurðulaust fyrir sig til 11. desember þegar ráðstefnunni líkur. Eins og vænta má er mikilli öryggisviðbúnaður og hann minnkaði ekki eftir hryðjuverkin í París föstudaginn 13. desember.

Frakkar eru gestgjafar en ráðstefnan er á vegum Sameinuðu þjóðanna sem standa straum af meginkostnaði við hana og annast framkvæmdina í samvinnu við Frakka. Utan þess rýmis sem Sameinuðu þjóðunum er ætlað standa 1.500 Frakkar vörð: ríkislögregla, staðarlögregla og brunaverðir. Þeir gæta öryggis á svæðinu og leiðum til þess.

Þeir eru einnig ábyrgir fyrir öryggi á opnu svæði til fundarhalda fyrir almenna borgara undir stjórn franskra yfirvalda. Þarna er um 25.000 fm svæði að ræða sem opnað verður þriðjudaginn 1. desember og talið er að um 20.000 manns muni sækja fundi þar. Þarna haf verið boðaðir 350 fundir og 71 kvikmynd verður sýnd í litlu kvikmyndahúsi. Frakkar kalla þetta Générations climat og þarna verða 340 sýningar- eða kynningarbásar ýmissa samtaka og stofnana.

Eins og af þessu má sjá er hér um risaverkefni að ræða á alþjóðavísu. Rauður þráður í ræðum fyrirmenna á fundunum í dag var að yrði ekkert aðhafst nú bitnaði það á komandi kynslóðum. Löngum hefur verið bent á að í því felist mikill stórhugur að fá mannkyn til að axla byrðar nú sem það njóti ekki sjálft – þetta er í hróplegri andstöðu við skammtímasjónarmið sem reist eru á að fleyta stjórnmálamönnum til valda eftir næstu kosningar, það er eftir fjögur ár eða svo. Málið snýst í raun um hvað þjóðir í norðri eru tilbúnar til að greiða þjóðum í suðri svo að þær grípi til róttækra ráðstafana gegn hlýnun jarðar og mengun – með þjóðum í norðri er átt við Vesturlönd og þar með Ástralíu, Nýja-Sjáland og Japan.

Í BBC í dag var birt frétt frá Peking þar sem fréttakonan var úti á götu með loftmengunarmæli sem sýndi að mengunin var 24 sinnum meiri en Alþjóðaheilbrigðisstofnunin telur hættumörk. Sjón er sögu ríkari, sjá hér.