4.11.2015 18:30

Miðvikudagur 04. 11. 15

Gestur minn á ÍNN í kvöld er Elín María Björnsdóttir leiðtogaþjálfari (Senior Global Consulant/Keynote Speaker hjá FranklinCovey). Frumsýnt kl. 20.00  í kvöld, sjá einnig.

Ólafur Ragnar Grímsson og fylgdarlið er nú í opinberri heimsókn í Víetnam og hitti hann í dag 4. nóvember Truong Tan Sang (f.1949), forseta Víetnams. Sang hefur verið forseti frá 2011 og er meðal æðstu manna Kommúnistaflokks Víetnams. Hann var handtekinn árið 1971 í Suður-Vítenam og haldið föngum til 1973 þegar samið var í París um lyktir stríðsins. Hann er lögfræðingur að mennt. Á vefsíðunni forseti.is segir:

Á fundinum [með Ólafi Ragnari] minntist forseti Víetnams á þátttöku forseta Íslands á yngri árum í baráttu vestrænna ungmenna gegn Víetnamstríðinu og forseti Íslands áréttaði að sú barátta gæfi heimsókn sinni til Víetnams djúpa persónulega merkingu. Sú saga væri áminning til valdhafa nútímans um að mótmælendur á okkar tímum gætu orðið forsetar í framtíðinni.

Þetta eru söguleg orðaskipti. Á árum Víetnamstríðsins háði Ólafur Ragnar stríð innan Framsóknarflokksins sem lauk með því að hann stóð að Möðruvallahreyfingunni á árinu 1973 um sömu mundir og samið var um lyktir Víetnamstríðsins.

Elías Snæland Jónsson, blaðamaður og ritstjóri, skrifaði í upphafi þessarar aldar bókina Möðuvallahreyfingin – baráttusaga. Þar greinir hann í smáatriðum frá ágreiningi meðal framsóknarmanna í aðdraganda þess að Möðruvallahreyfingin var stofnuð. Þeir deildu meðal annars um dvöl bandaríska varnarliðsins hér á landi en að andstaða við Víetnamstríðið hafi sett svip á baráttu ungra framsóknarmanna á þessum árum sést ekki af þessari bók (464 bls.).

Fjölmennasti fundurinn undir merkjum Ólafs Ragnars og hans manna var haldinn í troðfullu Háskólabíói undir lok janúar 1972 til að krefjast þess að hús við Fríkirkjuveg sem brann í desember 1971 og var í eigu Húsbyggingarsjóðs Framsóknarflokksins yrði endurreist svo að reka mætti þar áfram veitingastaðinn Glaumbæ „og ungu fólki búin geðfelld aðstaða til samkomuhalds í borginni“.  Þetta náði ekki fram að ganga og nú er Listasafn Íslands í þessu húsi.

Ólafur Ragnar ætti að skýra frá því til leiðbeiningar fyrir sagnfræðinga í Víetnam og á Íslandi hvar finna megi heimildir um baráttu hans gegn Víetnamstríðinu.