3.11.2015 16:00

Þriðjudagur 03. 11. 15

Bertel Haarder, menningarmálaráðherra Dana, er vinsælastur danskra stjórnmálamanna. Hann er úr Venstre-flokknum, mið-hægriflokknum, sem nú fer með stjórnarforystu í Danmörku. Mánudaginn 2. nóvember lýsti hann þeirri skoðun að danska ríkisútvarpið, DR, ætti að búa sig undir að afnotagjöld til þess lækkuðu og fjölmiðlaval Dana yrði fjölbreyttara.

Haarder sagði við Berlingske Nyhedsbureau: „Það verður vaxandi vandamál að sífellt fleirum finnst að þeir greiði mikið til Danmarks Radio þótt þeir nýti sér alls ekki neinar DR-rásir. Sé litið fram á veg getur þetta skapað vanda.“

„Af þessu leiðir að takmarka verður afnotagjaldið. Ekki dramatískt en það verður að fara lækkandi auk þess sem val á rásum eykst.“ sagði ráðherrann, þetta væri þróun en ekki bylting. Hann sagðist ekki vita hver lækkunin yrði eða hvernig valið yrði tryggt. Hann hefði ekki fullmótaða skoðun á málinu en það þyrfti að ræða næstu ár með hliðsjón af því að samkomulag stjórnmálaflokkanna um fjölmiðla rynni út í lok árs 2018.

Hann sagði skapa vanda að á ríkisreknum miðlum störfuðu fleiri blaðamenn en á öllum dagblöðum samanlagt. Þá skapaði það einnig vandamál að fréttastofa Danmarks Radio lyti einum fréttastjóra. Í því fælist ekki fjölbreytni. Þá bæru fréttir of mikið yfirbragð Kaupmannahafnar – sumir dagskrárliðir væru eins og „Nørrebro lokalradio“.

Ráðherrann tók fram að hann vildi ekki stríð, hann sagði sér kært sem fólki væri sameiginlegt og þar með public service þótt finna mætti annað nafn á fyrirbærið. Þess vegna vildi hann ekki leggja Danmarks Radio niður.

Verður spennandi fyrir áhugamenn um íslenska fjölmiðlun að fylgjast með umræðunum um þessi mál í Danmörku. Þar eins og í Bretlandi vilja ráðandi stjórnmálamenn ræða nýbreytni varðandi ríkisrekstur á fjölmiðlum. Virðast þeir geta það án þess að upp hefjist öfgafullar hrópanir á borð við þær sem heyra má hjá hræðsluáróðursmeisturum hér á landi sem tala fyrir stöðugt hærri gjaldtöku af almenningi í þágu ríkisútvarpsins samhliða því sem áhorf og hlustun minnkar.

Innan ríkisútvarpsins hefur valdi verið þjappað saman undanfarin ár, til dæmis með einum fréttastjóra hljóðvarps og sjónvarps. Þá ríkir augljóst 101-viðhorf í mörgum bókmennta- og menningarþáttum þar sem fámennur hópur með keimlíkan smekk hefur búið um sig. Bítur hann oft hlutdrægt frá sér eins kynnast má af pistlum Eiríks Guðmundssonar, sjá t.d. hér.